Vefþjóðviljinn 47. tbl. 18. árg.
Nú vill svo vel til að Vefþjóðviljinn lumar á aðferð sem ætti að gleðja áhugamenn um það hvernig menn skipa „ópólitíska“ seðlabankastjóra.
Það er ekki með því að skipa einn seðlabankastjóra eins og Samfylkingin vill eða þrjá eins og Framsóknarflokkurinn vill.
Eina leiðin til að skipa ópólitískan seðlabankastjóra er að skipa engan. Eina leiðin að ópólitískum seðlabanka er að hafa engan slíkan.
Og það að losna við gáfulegar rökræður um hvort sé betra að hafa einn eða þrjá seðlabankastjóra er ekki eini kosturinn við að hafa engan seðlabanka á vegum ríkisins.
Það er heldur ekki helsti kosturinn að á annað hundrað starfsmenn Seðlabanka Íslands þyrftu að finna sér gagnlegri störf.
Stærsti ávinningurinn er seðlaprentunarvaldið er tekið af ríkisvaldinu. Það getur þá ekki framar lækkað vexti eða setta prentvélarnar í gang þegar koma þarf gervihagvexti af stað fyrir kosningar.
Miðstýrð peningastjórnunarkerfi ríkisseðlabankanna eru hin eina sanna kerfisáhætta í efnahagslífinu. Þegar stjórnendur þeirra gera mistök – halda vöxtum of lágum, dreifa peningum með þyrlum – hríslast röng skilaboð um allt hagkerfið. Fyrirtæki vítt og breitt hefja fjárfestingar á röngum foresendum. Þegar fjárfestingarnar reynast reistar á fúnum stoðum verður skyndileg leiðrétting í efnahagslífinu – bólan springur – og það sem kallað er kreppa tekur við.
Núverandi stjórn peningamála er einfaldlega sósíalismi og það skiptir nákvæmlega engu máli hve margir embættismennirnir í sósíalísku kerfi eru.
Peningastefnunefnd seðlabankans sem stofnuð var fyrir nokkrum árum er fáránleg verðlagsnefnd sem hefur það hlutverk að stýra verðlagi á fjármagni.
Er nokkur furða að þessi má séu reglulega í algerri klessu þegar haft er í huga að ríki hafa hvarvetna seðlaprentunarvaldið, gefa tóninn með ákvörðunum sínum um stýrivexti, ryksuga skuldabréfamarkaði, prenta peninga fyrir gjaldþrota banka og ríkissjóði, tryggja innstæður, setja reglur og hafa eftirlit með fjármálastarfsemi?