Laugardagur 8. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 39. tbl. 18. árg.

Mynd úr Morgunblaðinu 1991. Steingrímur J. Sigfússon á sérhagsmunavaktinni fyrir íslenskan landbúnað. Nú er þingmaður Sjálfstæðisflokksins kominn á vaktina.
Mynd úr Morgunblaðinu 1991. Steingrímur J. Sigfússon á sérhagsmunavaktinni fyrir íslenskan landbúnað. Nú er þingmaður Sjálfstæðisflokksins kominn á vaktina.

Þeir eru alltaf á vaktinni, hver sem öldin er og hvaða flokkur sem er í ríkistjórn, varðmenn sérhagsmunanna.

Snemma árs 1991 var Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra. Þá spurðist út að fluttur væri til landsins og meðal annars notaður á pizzur jurtaostur eða það sem stundum er kallað „ostlíki“.

Landbúnaðarráðherrann brást hinn versti við að lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali að hann myndi aldrei láta slíkt „gervidrasl“ inn fyrir sínar varir. Til áhersluauka fór hann með formanni bændasamtakanna á veitingastað, snæddi þar pizzu með íslenskum osti og lét birta myndir af afrekinu í dagblöðum.

Kaupmenn í Högum og víðar hafa að undanförnu sóst eftir því að fá að flytja inn osta, sem ekki eru framleiddir hér á landi, án þess að tollar geri verð þeirra fráleitt. Kerfið þumbast við og ekki þurfti að bíða lengi eftir því að varðmaður sérhagsmunanna léti í sér heyra. Nú 33 árum eftir að Steingrímur var á vaktinni er það Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem stendur hana. Í viðtali við Ríkisútvarpið í vikunni lét Haraldur eins og það væri álíka snúið að koma mönnuðu fari til Mars og að aflétta innflutningshömlum á osti til Íslands.

Haraldur telur til að mynda að Ísland ætti ekki að fara í „einhliða opnun“ fyrir innflutning heldur þurfi önnur lönd líka að opna um leið. Þetta er sama svarið og hjá varðmönnum sérhagsmuna í öðrum löndum. Og þannig gerist aldrei neitt. En hvers vegna má ekki fara í einhliða opnun nú eins einhliða lokun á sínum tíma? Ekki voru gerðir neinir samningar um það við önnur ríki að allir skelltu í lás á sama tíma.

Haraldur bætti því svo við að hann „vissi ekki að það væri forgangsmál fyrir íslenska neytendur að fá buffalóosta.“ Það er sorglegt að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi slíkt viðhorf til neytenda að þeir þurfi í raun að leggja fram hóppöntun til þingmanna um ákveðna vöru til að það komi til álita að leyfa á henni innflutning.