Föstudagur 7. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 38. tbl. 18. árg.

Einu sinni sögðu fagmennirnir á fréttastofu Ríkisútvarpsins frá því að Elísabet Englandsdrottning væri hvorki meira né minna en „einvaldur Ástralíu“. Skömmu áður höfðu þeir sagt ítrekaðar fréttir af skæruliðahópi á Norður-Írlandi sem berðist fyrir því að Norður-Írland yrði áfram hluti af „breska lýðveldinu“. Er óneitanlega merkilegur árangur einnar fréttastofu að ráða bæði yfir fréttamanni og vaktstjóra sem virðist ókunnugt um að Bretland sé konungdæmi.

Vestrænir fjölmiðlar hafa geysilegan áhuga á vetrarólympíuleikunum í Rússlandi og setja stórt og smátt á leikunum í samhengi við þarlend furðulög um samkynhneigð. Ríkisútvarpið taldi í dag upp háttsetta erlenda fulltrúa sem yrðu viðstaddir setningarathöfn leikanna og var þar á meðal Shinzo Abe, sem fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði að væri „forseti Japans“, en ekki kom fram hvort Akihito keisari hefur eitthvert hlutverk undir stjórn hins nýja forseta.

Auðvitað á ekki að gera of mikið úr svona hlutum. Jafnvel þótt hér séu atriði sem eiga að vera á allra vitorði. Bretland er ekki lýðveldi. Í Ástralíu er enginn einvaldur og alls ekki drottningin. Japan er keisaradæmi.
Öllum getur orðið á, jafnvel um slíka hluti. Það ætlast enginn til þess að allir viti allt, eða geri aldrei mistök. En hversu nákvæmir ætli fréttamenn séu almennt í frásögnum af flóknum og umdeildum málum, þar sem mjög miklu skiptir að fara nákvæmlega með hugtök, svo áheyrendur fái ekki villandi mynd af því sem fjallað er um Þeir sem tala eins og Bretland sé lýðveldi og segja frá ferðum Japansforseta, ætli þeir fari alltaf nákvæmlega með önnur mál og umdeilanlegri?

Meðal annars þess vegna er mikilvægt að fréttamönnum sé sýnt aðhald og að fréttamenn og dagskrárgerðarmenn leiðrétti þegar þeir fara rangt með, eða hafa óviljandi gefið villandi mynd af málavöxtum. Og hvernig finnst mönnum starfsmenn Ríkisútvarpsins almennt bregðast við gagnrýni?

Þegar rangt er farið með í fréttum, eða meira hefur verið fullyrt en ástæða var til, þá er mikilvægt að slíkt sé leiðrétt. Ekki nægir að segja einfaldlega rétt frá í næsta fréttatíma eða hætta birtingu villandi umfjöllunar. Slíkt er ekki leiðrétting.

Og hér er auðvitað ekki fyrst og fremst verið að hugsa um atriði eins og forsetann í Japan. Það er saklaust og ruglar engan, því nær allir vita það rétta. Það sem er miklu skaðlegra eru villandi fréttir af umdeilanlegum hlutum, þar sem áhugi eða skoðanir fréttamannsins leiða oft til þess að heildarmyndin sem áhorfandinn fær er villandi. Slíkt getur hæglega gerst án þess að fréttamaðurinn ætli sér slíkt. Hann hefur einfaldlega gert fréttina út frá eigin hugmyndum um málið. Þær fréttir verða yfirleitt miklu skaðlegri en nýjustu tíðindi af einvaldi breska lýðveldisins.