Helgarsprokið 9. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 40. tbl. 18. árg.

Samfylkingarfélagið í Reykjavík hélt fjáröflunarkvöldverð á dögunum. Þar hefur vafalaust verið gleði og gaman enda var boðið upp á „palestínskan kvöldverð“ á samkomunni. Samfylkingarmenn hafa þar getað gætt sér á palestínskum kræsingum og glaðst yfir hverjum bita, enda hafa þeir lengi verið miklir stuðningsmenn palestínumanna og haft mörg orð þar um.

Meðal þess sem vinstistjórnin lagði mesta áherslu á eftir bankahrunið var einmitt að samþykkja að Ísland viðurkenndi Palestínu og fögnuðu vinstrimenn mikið þegar það var í höfn.

Hvernig eru aftur aðstæður samkynhneigðra í palestínu og víða annars staðar í arabaheiminum? Þær eru hryllingur. Kúgun, ofsóknir og dauði. Miðað við ástandið þar búa samkynhneigðir í Rússlandi við samfellda gleðigöngu. En samt er lítið sem ekkert minnst á þetta. Ekki var það sett sem skilyrði fyrir viðurkenningu Palestínu að gerð yrði bragarbót á aðstæðum samkynhneigðra. Ekki mæta íslenskir ráðamenn með regnbogavettlinga á fundi með ráðamönnum úr Arabaheiminum. Er mikið um fræðsluþætti, málþing og heimildamyndir um stöðu samkynhneigðra og kvenna í Arabaheiminum?

Aðstæður samkynhneigðra í Afríku eru víða litlu betri. Hvað gera vestrænir ráðamenn til að þrýsta á um breytingar þar?
Það eru ekki aðeins samkynhneigðir sem búa við ömurlegar aðstæður víða í þessum heimshlutum. Konur eru undirokaðar með ótrúlegum hætti. Þetta getur komist á slíkt stig að jaðrar við brjálæði. Fyrir nokkru brann hópur stúlkna inni í Saudi-Arabíu, því enginn karlkyns fulltrúi úr fjölskyldu þeirra var á brunastaðnum, og því máttu slökkviliðsmennirnir ekki fylgja þeim út. En það er sjaldan um þetta talað. Íslenskir vinstrimenn leggja stundum mikið á sig til að afsaka stöðu kvenna í Arabaheiminun, en eru sjaldan eins umburðarlyndir þegar kemur að stöðu jafnréttismála á Íslandi.

Nú er það auðvitað ekki þannig að ekki megi mótmæla kúgun á einum stað nema berjast einnig gegn henni á öllum öðrum stöðum. En það er samt áhugavert hversu mikinn áhuga menn hafa á ástandi á einum stað, en þegja yfirleitt um mun verra ástand annars staðar.

Undanfarin ár hefur mörgu verið lekið. Alls kyns gögnum um fjármálalífið hefur verið lekið, verjendur bankamanna saka saksóknara um að leka gögnum, gögnum er stolið og lekið. Nýlega voru birt gögn um rannsókn kynferðisbrotamáls og þannig má lengi telja. Aðfinnslum um þetta er oft mætt með þögn eða þá fullyrðingum um rétt almennings til upplýsinga, nú eigi allt að vera uppi á borðum, og þeir sem gagnrýna slíkan leka eru oft sakaðir um tilraun til þöggunar. En þegar grunsemdir eru uppi um að lekið hafi verið upplýsingum um einstakling sem hafði verið í fréttum vegna baráttu sinnar fyrir hæli á Íslandi, þá nefnir enginn rétt almennings til upplýsinga. Þeir sem gagnrýna þennan hugsanlega leka eru ekki sakaðir um þöggun.

Auðvitað er sjálfsagt að kanna þetta mál. Hafi lög verið brotin á að rannsaka það. Þessi orð Vefþjóðviljans má ekki skilja sem andmæli við því að „lekamálið“ fái eðlilega meðferð. En ætti þetta ekki að eiga við á fleiri sviðum, þar sem upplýsingum kann að hafa verið lekið?

Á dögunum birti dóttir Woodys Allens kvikmyndaleikstjóra opið bréf í erlendu dagblaði og bar þar mjög ógeðfelldar sakir á hann. Ekkert hefur verið sannað í málinu, en ásakanirnar eru ekki fallegar. Fréttablaðið birti fljótlega leiðara þar sem rökstutt var að þrátt fyrir þetta þyrftu menn ekki að neita sér um að horfa á myndir Allens. Vondir menn gætu gert glæsileg listaverk og það ætti meta listaverkið eftir eigin verðleikum en ekki eftir hugsanlegum kostum eða göllum listamannsins. Jújú, það má halda þessu fram, eins og mörgu öðru. En var það ekki 365, útgefandi Fréttablaðsins, sem hætti við sýningu á Lífsleikni Gillz eftir að höfundurinn hafði verið sakaður um kynferðisbrot?