Miðvikudagur 5. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 36. tbl. 18. árg

Alveg ferlegt glerið í rúðunum hjá mér.
Nú, hvað gerðist?
Ég halla mér stundum upp að því og þetta gler er alltaf að rispa demantshringinn minn.
Nei hvað segirðu? Þetta gengur ekki lengur. Viltu ekki bara flytja í glerhús?

Íslensk stjórnmálaumræða getur tekið á sig ýmsar myndir. Nú heyrist því stundum haldið fram að EES-samningurinn brjóti stjórnarskrá Íslands. Einhverjir draga af þessum látlausu stjórnarskrárbrotum þá ályktun að rétt sé að ganga í Evrópusambandið. Sumir segja að þau rök, sem notuð séu gegn aðild að Evrópusambandinu, megi alveg eins nota gegn EES-samningnum.

Það er auðvitað ekki þannig að EES-samningurinn brjóti íslensku stjórnarskrána. EES-samningurinn hefur lagagildi. Stjórnarskráin er æðri lögum. Fari samningur, sem íslenska ríkið gerir, að einhverju leyti í bága við stjórnarskrána þá gildir samningurinn einfaldlega ekki að því leyti. Stjórnarskráin er alveg óbrotin, rétt eins og glerrúða rispar ekki demant. Lög brjóta ekki stjórnarskrána. Það er stjórnarskráin sem gildir en ekki lög sem fara gegn henni.

Margir finna að því að íslenskir þingmenn séu alltof leiðitamir þegar kemur að innleiðingu erlendra tilskipana. Vefþjóðviljinn er þeirrar skoðunar. En þingmönnum er auðvitað ekki skylt að innleiða þessar tilskipanir. Það er einfaldlega þeirra ákvörðun hverju sinni að ýta á takkann þegar hlýðnir ráðherrar koma með frumvörpin. Íslenska utanríkisþjónustan og ráðuneytin taka við tilskipunum eins og sjálfsögðum hlut, í stað þess að andmæla þeim frá upphafi og æ síðan. Ráðherrar eru orðnir jafn hlýðnir og embættismennirnir og bera innleiðingarfrumvörpin í þingið, án nokkurs sjálfstæðs vilja. Þingmenn ýta svo á takkann.

En allt eru þetta ákvarðanir sem íslenskir embættismenn, íslenskir ráðherrar og íslenskir alþingismenn taka hverju sinni. Það er þeirra ákvörðun að innleiða alls kyns tilskipanir sem þeir skilja ekkert í. Rétt eins og stærstur hluti þingmanna er sífellt að samþykkja ný lög sem hann veit álíka mikið um. En í þessu felst ekki að EES-samningurinn brjóti stjórnarskrána.

En svo er auðvitað gríðarlegur munur á EES-samningnum og Evrópusambandsaðild. Það þarf engin mótsögn að vera í því að styðja EES-samninginn en vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Enda efast víst enginn um að útilokað sé að ganga í Evrópusambandið án þess að breyta stjórnarskránni. En jafnvel sú staðreynd, að Evrópusambandsaðild er útilokuð samkvæmt núverandi stjórnarskrá landsins, hindraði ekki krata að láta Ísland sækja um aðild að Evrópusambandinu – og auðvitað án þjóðaratkvæðagreiðslu.