Þriðjudagur 4. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 35. tbl. 18. árg

Í morgunþætti Bylgjunnar í gær sagðist Brynjar Níelsson þingmaður ekki vita hvað hann væri að samþykkja þegar reglur Evrópusambandsins væru innleiddar hér á landi á sjálfu Alþingi. Þingmenn hefðu ekki tíma til að kynna sér allt flóðið. Undan flóðinu heyrðist hann svo kalla í uppgjafartón hvort ekki mætti allt eins ganga í ESB.

Þá verður að spyrja hvort Íslendingar neyðist til að innleiða öll þessi ósköp.

Nærtækt dæmi sem Vefþjóðviljinn hefur sagt frá áður er sú skikkan ESB að blanda verði dýrum lífolíum í bílaeldsneyti. Það mun kosta Íslendinga mörg hundruð milljónir á ári í erlendum gjaldeyri að fara að þessum reglum en Ísland er einmitt í gjaldeyrishöftum vegna skorts á slíkum eyri.

Alþingi „innleiddi“ þessar eldsneytisreglur síðasta vetur án þess að nokkur þingmaður sæi ástæðu til að tjá sig um málið í þingsal. ESB mælir svo fyrir um að reglurnar skuli taka gildi í síðasta lagi 2020 en Alþingi flýtti sér sem mest það mátti síðasta vetur til að þær gætu tekið gildi á þessu ári. Það mátti engan tíma missa.

En Liechtenstein, sem er lítið EES ríki eins og Ísland, þarf aldrei að „innleiða“ þessar reglur heldur fékk undanþágu frá þeim, og hefur þó Liectenstein enga sérstöðu í orkumálum eins og Ísland.