Vefþjóðviljinn 31. tbl. 18. árg.
Ung kona sem starfar á leikskóla hefur vakið athygli fyrir netpistil sem hún skrifaði um launakjör þeirra sem þar starfa, bæði þeirra sem geta státað af prófi sem leikskólakennari og svo þeirra sem búa ekki svo vel. Hún segist nú telja að ákvörðun sín að hefja slíkt nám hafi verið fjárhagslega versta ákvörðun sem hún hafi tekið á ævinni. Hún sé föst í launaflokki 119.
Mér skilst að ég eigi ekki möguleika á hækkun fyrr en ég klára B.ed gráðuna mína eftir tvö ár. Þá munu launin mín hækka um 49.139 kr. samkvæmt núgildandi kjarasamningum. Við skulum vona að þessi tala verði hærri árið 2016. Ef ég klára svo mastersgráðu sem nú er skilyrði fyrir leyfisbréfi kennara munu launin mín hækka aftur og í þetta skipti um 7.163 kr., samkvæmt núgildandi kjarasamningum, og ná þá launin samt ekki 300.000 kr. á mánuði. Eru það sanngjörn laun fyrir manneskju með mastersgráðu? Foreldrar mínir eru hvorugir með háskólapróf en þau eru bæði með þónokkuð hærri laun en útskrifaður leikskólakennari með mastersgráðu. Er það sanngjarnt?
Það er skiljanlegt að hún sé ekki mjög ánægð með þau laun sem hún fær. Það finnst engum skemmtileg tilhugsun að sjá fram á fjárhagslegt basl og laun sem varla duga fyrir nauðþurftum, alla starfsævina. Ekki dettur Vefþjóðviljanum í hug að áfellast konuna fyrir að örvænta yfir horfunum. En orð hennar geta samt verið tilefni til almennra hugleiðinga um hluta af því sem hún segir.
Það er nefnilega algengt þegar fólk rökstyður að það eigi að fá hærri laun, að það tiltaki nákvæmlega hversu mörgum árum það hafi eytt í „háskóla“. Eftir svo og svo mörg ár í háskóla, eigi það rétt á betri launum en það hafi. En það er bara alls ekki þannig.
Það er ekkert víst að starfsmaður verði vinnuveitanda sínum eitthvað „verðmætari“ þótt hann hafi verið svo og svo mörg ár í einhverju námi, jafnvel þótt það sé komið á „háskólastig“. Og vinnuveitandinn hefur ekkert endilega úr fleiri krónum að spila til launagreiðslna, þótt starfsmaðurinn „bæti við sig mastersgráðu“.
Fólk eyðir tíma í nám og safnar gjarnan skuldum á meðan. Þess vegna er mjög skiljanlegt að það þurfi og vilji fá hærri laun, eftir námið og námslánin. En sú þörf fólks og sú staðreynd að það hafi verið í námi, breytir ekki endilega því hvað vinnuveitandinn getur greitt fyrir störf þess, eða hversu „verðmæt“ þau eru honum í raun og veru. Og hér er að sjálfsögðu er talað almennt, ekki um störf á leikskólum frekar en annars staðar.
Sumar stéttir hafa barist fyrir því að enginn fái að gegna starfinu nema hafa verið mörg ár í námi, og að það nám verði einnig fært á „háskólastig“. Fyrir sextán árum fögnuðu fóstrur því að nám þeirra væri komið á háskólastig og komið væri starfsheitið „leikskólakennari“. Nú þurfa menn að vera í fimm ár í námi til að fá að nefna sig leikskólakennara. Var það nú heillaskref? Er ekki hægt að ljúka þessu á þremur árum? Myndi það nú ekki bæta kjör starfsmanna leikskólanna eitthvað ef verulega yrði dregið úr þessum kröfum og þeir kæmust fyrr á vinnumarkaðinn með fullum réttindum og kjörum, með lægri lán á bakinu? Gæti það sama ekki átt við hjá mörgum öðrum starfstéttum?