Vefþjóðviljinn 30. tbl. 18. árg.
Ráðuneyti innflytjendamála hefur undanfarið setið undir ásökunum um að hafa látið fjölmiðla fá upplýsingar um hælisleitanda, sem verið hafði mikið í fréttum vegna baráttu sinnar gegn því verða sendur úr landi.
Það er jafnan alvarlegt ef trúnaðargögnum er lekið, bara af því að einhver telur sig þess umkominn að ákveða sjálfur að upplýsingar eigi að birtast. Þess vegna er skiljanlegt að menn vilji komast til botns í málinu.
Fjölmiðlar eru alla jafna mjög hlynntir lekum og færa sér gjarnan illa fengnar upplýsingar í nyt, þótt þeir gangi vissulega mislangt í þeim efnum. Þá skáka þeir í því skjóli að upplýsingarnar eigi „erindi við almenning“ sem er afskaplega huglægur mælikvarði.
Nú bregður hins vegar svo við að sá fjölmiðill sem gengið hefur einna lengst í þeim efnum hefur skorið upp herör gegn litla ráðuneytismanninum – sem það telur hafa lekið gögnunum – og er með nokkra ákafa blaðamenn í því að leita hans.
Hið minnsta tveimur öðrum fjölmiðlum munu hafa verið afhent hin meintu gögn um hælisleitandann. Mega menn ekki eiga von á því að þessir fjölmiðlar leki því til almennings því hver lak trúnaðargögnunum til þeirra?
Mætti ekki segja að það „varði almenning“ hver brást trúnaði?