Vefþjóðviljinn 29. tbl. 18. árg.
Í síðstu viku kröfðust kratar á þingi þess að ráðherrarnir Illugi Gunnarsson og Eygló Harðardóttir hættu við ferðir sínar á vetrarólympíuleika í Rússlandi. Það væri nefnilega slæmt ástand í mannréttindamálum í Rússlandi. Var þeim mikið niðri fyrir í umræðunni.
Í dag samþykkti Alþingi sérstakan fríverslunarsamning sem gerður hefur verið við kommúnistastjórnina í Peking. Samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum, nema „píratarnir“ þrír sögðu ýmist nei eða sátu hjá.
Það að fulltrúi ríkisstjórnar fari og fylgist með ólympíuleikum er sóun á skattpeningum. En sem stjórnmálayfirlýsing er það mun minna skref en að gera sérstakan fríverslunarsamning við annað ríki.
Það er ýmislegt að í mannréttindamálum í Rússlandi, ekki síst þegar kemur að vissum hópum. Það er sjálfsagt að gagnrýna það. En Rússland er samt ekki Kína. Það er algerlega fráleitt að telja ástandið svo slæmt í Rússlandi að ráðherrar megi ekki fara þangað á íþróttamót, en vilja á sama tíma gera sérstakan fríverslunarsamning við kommúnistastjórnina í Kína. Það er einnig stór munur á því að íslenskir ráðherrar fari um leið og tugir eða hundruð annarra erlendra ráðamanna á ólympíuleika, og svo því að Ísland gangi sérstaklega til tvíhliða fríverslunarsamninga við stjórnina í Peking.
Íslensku ráðherrarnir eiga að hætta við Rússlandsferð sína og spara skattfé. Og fjölmiðlar ættu að spyrja kratana hvers vegna þeir, sem ekki mega fara á ólympíuleika í Rússlandi, eiga að gera fríverslunarsamning við Kína.