Vefþjóðviljinn 32. tbl. 18. árg.
Í viðtali við Morgunblaðið í vikunni sagðist Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ekki sjá nein merki þess að núverandi ríkisstjórn ætli að nálgast skattamálin með öðrum hætti en fyrri ríkisstjórn. Þess í stað hafi hún aukið skattbyrði atvinnulífsins.
Má þar nefna bankaskatta, sem á endanum leiða til hærra vaxtastigs fyrir fyrirtæki og heimili, auk veiðigjalda og stimpilgjalda.
Markmiðið með bankaskattinum er sagt vera að endurheimta kostnað sem ríkissjóður varð fyrir vegna bankahrunsins auk þess að fjármagna þjóðnýtingu á skuldum sumra heimila.
En eins og Þorsteinn Víglundsson bendir á koma skattar á bankana á endanum fram í lakari vaxtakjörum fyrir fyrirtækin og heimilin.
Hvers vegna eiga heimilin og fyrirtækin að greiða ríkissjóði bætur fyrir það tjón sem hann varð fyrir í bankahruninu?