Vefþjóðviljinn 20. tbl. 18. árg.
Vandræðin sem þingmenn í efnahags-og viðskiptanefnd hafa ratað í undanfarna daga vegna bankaskatts og svokallaðs frímarks heildarskulda, er dæmigert fyrir það sem getur gerst þegar undirstaðan sjálf er veik.
Og meginvandamálið í málinu er ekki misskilningur og rangfærslur helsta talsmanns meirihluta þingnefndarinnar, eða sýndarmennska stjórnarandstöðunnar í nefndinni, sem sjálf fagnaði frímarkinu og sagði ekki gagnrýnisorð um það fyrr en mánuði seinna.
Vandamálið er stóra aðgerðin sjálf, sem stjórmmálamenn kalla „skuldaleiðréttingu“. Það er hún sem veldur öllum vandræðunum. Hún er dæmi um það sem getur gerst þegar ríkið fer á vettvang og vill breyta einhverju ástandi. Þá verða oft afleiðingar eins og þessar.
Til að fjármagna „skuldaleiðréttingarnar“, en án þess að þiggjendunum finnist þeir borga þær sjálfir, þarf að finna einhvern annan til að vera í hlutverki þess sem borgar. Þá eru stórir bankar nærtækir. Bankar eru ekki vinsælir lengur. En svo byrja menn að segja að þetta séu í raun skaðabætur fyrir tjón sem bankar hafi valdið með óábyrgri hegðun sinni fyrir fimm árum þótt stóru bankarnir þrír sem nú starfa séu stofnaðir með atbeina og aðild ríkissjóðs eftir bankahrunið. Þá fara einhver fjármálafyrirtæki að „væla“ í nefndinni eins og einn nefndarmanna orðaði það.
Þá bregðast menn við með frímarki, sem á að hlífa litlu fjármálafyrirtækjunum við skattinum. Og hvernig eiga menn að gera það? Á að finna tölu sem hlífir nákvæmlega þeim sem menn vilja hlífa, eða á að setja bara fram eitthvað nógu stórt til að þeir sleppi örugglega allir? En það þykir svo kannski ekki „faglegt“ að setja bara einhverja tölu. Einhver vill kannski vita „hvaðan hún kom“.
Á endanum er búið til lágmark, sem enginn getur sagt til um nákvæmlega hvernig kom, hvort var reiknað út eða bara ákveðið til að ákveða eitthvað. Stjórnarandstaðan var sérstaklega ánægð með lágmarkið, en er nú mjög reið yfir lágmarkinu sem hún var svo ánægð með. Hún krefst þess að fá að vita hvernig lágmarkið, sem hún var ánægð með fyrir mánuði, var fundið, en datt aldrei í hug að spyrja að því á nefndarfundunum þegar hún var að bóka ánægju sína með það. Og nefndin sjálf man ekki frá degi til dags hvað hún gerði og hvers vegna hún gerði það. Þess vegna hefur nefndin nú einn mann í því að rifja þetta upp daglega, og sama mann í að leiðrétta daginn eftir það sem hann minnti daginn áður.
Þetta er það sem gerist þegar menn byrja á „stórfelldum skuldaleiðréttingum“, þar sem ríkið ætlar að „leiðrétta“ lán sem Pétur tók hjá Páli.