Vefþjóðviljinn 359. tbl. 17. árg.
Í gær minntist Vefþjóðviljinn í fáum orðum á umburðarlyndið, sem hjá mörgum mætti endast lengur en yfir örfáa jóladaga. En fleira kemur upp í huga frjálslynds vefrits um jól.
Hvernig er með frjálshyggju og kristindóminn, eru það ekki algerar andstæður? Er það ekki rétt að frjálshyggjan lofsyngi græðgina og þá skoðun að hver sé sjálfum sér næstur, að hver eigi að safna sem mestum auði en láta sig annað fólk engu varða?
Nei því fer fjarri.
Frjálshyggjan snýst í sem allra fæstum orðum um að hver og einn eigi að vera sem mest sjálfráða um sitt jarðneska líf. Svo lengi sem hann brýtur ekki á öðrum, eigi hann að mega haga lífi sínu eftir eigin gildismati en ekki annarra. Ef einhver er þannig gerður að hann vill eingöngu hugsa um að græða peninga, fullkomna frímerkjasafnið sitt eða ganga þrívegis á öll fjöll í öllum löndum, þá eigi hið opinbera ekki að skipta sér af því. En í þeirri afstöðu frjálshyggjumanna, að ríkið eigi ekki að banna manni að taka ákvarðanir um eigið líf, felst ekki stuðningur við val hans.
Frjálshyggjumenn virða einfaldlega hvern mann þess að hann fái sjálfur að taka sem allra flestar ákvarðanir sjálfur um eigið líf, óháð áliti annarra á þeim ákvörðunum.
Hvað segir Kristur? Hann hvatti ríka manninn til að selja eigur sínar og gefa fátækum. En hann sagði aldrei að aðrir ættu að taka eigur ríka mannsins af honum og deila út. Kristur mat menn eftir því sem þeir gerðu sjálfir, af eigin vilja, en ekki hvað þeir gerðu til að slá sér upp á torgum. Þótt búið sé að banna biblíusögukennslu muna líklega flestir eftir því hvern mun Kristur gerði á ekkjunni, sem þegjandi og hljóðalaust gaf aleigu sína, og svo þeim sem börðu bumbur til að auglýsa gjafmildi sína og gæði. Kristur sagði aldrei að menn ættu að gera góðverk á annarra kostnað.
Frjálshyggjumenn eru alls ekki á móti því að menn geri góðverk. Þeim finnst að hver maður eigi að gera góðverk sín á eigin kostnað en ekki annarra.