Helgarsprokið 15. desember 2013

Vefþjóðviljinn 349. tbl. 17. árg.

Þegar Vefþjóðviljinn hvetur til þess að menn berjist gegn forsjárhyggjunni og afskiptasemi stjórnlyndra embættismanna og stjórnmálamanna af daglegu lífi fólks, nefnir hann stundum að ein ástæða þess, að slík barátta sé mikilvæg, sé að þeir stjórnlyndu muni aldrei hætta. Þegar þeir hafa komið einni reglu á, fara þeir strax að vinna að þeirri næstu og nota þá oft síðustu reglu sem röksemd fyrir hinni næstu.

Í vikunni var sagt frá því að fyrir alþingi lægi frumvarp Eyglóar Harðardóttur um innleiðingu tilskipunar Evrópusambandins um jafna stöðu karla og kvenna þegar komi að viðskiptum með vöru og þjónustu.
Hver getur nú verið á móti slíku? Jú, þeir sem vilja frjáls viðskipti, þeir vilja líka að fólk sé frjálst að því að velja við hverja það semur og við hverja ekki. Ef Linda Pétursdóttir vill reka líkamsræktarstöð og eingöngu taka konur í viðskipti, þá á hún að mega það. Ef einhver annar vill reka bifreiðaverkstæði eingöngu skipta við þá sem koma klæddir í KR-búninginn, þá á hann að mega það líka. Ef einhver vill reka verslun og veita sumum afslátt en öðrum ekki, þá á hann að mega það. Fólk á að mega semja sín á milli um viðskipti og það á ekki að koma embættismönnum við.

Þegar stjórnlyndir menn vilja fá að leggja eitthvert svið undir sig, þá grípa þeir tækifærið þegar einhver á sviðinu gerir eitthvað sem þorra fólks þykir ógeðfellt. Þá gæta hinir stjórnlyndu þess að vera fljótir á svæðið og setja reglu. Þeir sem andmæla reglunni, sitja uppi með það að verða stimplaðir sem stuðningsmenn hins ógeðfellda athæfis.
Þeir sem ekki vilja reglur um að einkaaðilum sé bannað að mismuna, þeir fá oft að heyra að þeir séu talsmenn mismununar. Það er gamalt áróðursbragð og nýtt, að segja að þeir sem vilji að fólk hafi frelsi séu einnig stuðningsmenn alls þess sem fólk gerir svo við frelsið sitt. Sem er þó fráleitt.

Margir eru mjög á móti mismunun. Þó er frelsið til þess að „mismuna“ eitt mikilvægasta frelsi hvers manns. Menn verða að sjálfsögðu að gera mun á opinberum aðilum og einkaaðilum að þessu leyti. Hið opinbera á ekki að „mismuna“ nema fyrir því séu gild rök og stuðst við einhvers konar almennar reglur. Það er til dæmis „mismunun“ að einungis öryrkjar fái örorkubætur, en það er mismunun sem þykir studd við frambærileg rök.
En einstaklingar eiga auðvitað að mega „mismuna“ í daglegu lífi sínu. Bæði í augljósum málum eins og þeim að kvænast einni konu en ekki annarri eða sjá alla heimaleiki Vals en einskis annars liðs. En líka í þvi hvernig fyrirtæki þeir reka og hverja þeir taka í viðskipti. Hugsanlega munu einhverjir gera eitthvað sem fólki líkar ekki, en þeir munu þá tapa viðskiptum. Það eru hin eðlilegu viðbrögð, ekki reglusetningar. Og alls ekki frá erlendum kontóristum.

Sama á að gilda um félög og fyrirtæki. Menn eiga að vera frjálsir að því að stofna félög og taka ekki aðra inn í félagið en þá sem þeir vilja. Hvaða rétt eiga menn á því að aðrir menn hleypi þeim í félagið sitt? Við reglusetningar á ekki aðeins að spyrja hvort mönnum líki vel eða illa við það sem á að banna, heldur á líka að spyrja hvaða heimild menn hafi til þess að skipta sér af því. Þeir sem oft hrósa sér af umburðarlyndi sínu, ættu að hafa í huga að það er engin dyggð að umbera það sem manni líkar. Umburðarlyndið snýst um að umbera það sem manni líkar ekki.