Vefþjóðviljinn 348. tbl. 17. árg.
Svandís Svavarsdóttir var umhverfisráðherra allt síðasta kjörtímabil og þótti hvergi slá af helstu og mestu kröfum sem hægt var að gera til fyrirtækja í umhverfis- og mengunarmálum.
Það kemur því nokkuð á óvart að íslensk stjórnvöld skuli á síðasta kjörtímabili hafa óskað eftir því í aðildarviðræðum Íslands við ESB að Ísland fái undanþágu frá 70 kPa hámarki á gufuþrýstingi bensíns á sumrin. Íslensk stjórnvöld óskuðu eftir því að fá mörkin hækkuð í 80 kPa. Þetta kemur fram í kafla um samningsafstöðu Íslands um umhverfismál (bls. 42).
Því hærri sem gufuþrýstingur bensíns er því meira af því sleppur út í andrúmsloftið við meðhöndlun, eins og áfyllingu á bíl eða garðsláttuvél.
Þetta hámark á uppgufun bensíns var sett á sínum tíma af umhverfis- og heilsuverndarástæðum, ekki síst til að vernda starfsmenn og viðskiptavini bensínstöðva og starfsmenn olíubirgðastöðva fyrir bensíngufum þegar hlýtt er í veðri.
Brot á reglugerðinni sem kveður á um 70 kPa hámarkið hefur hingað til varðað sektum eða allt að tveggja ára fangelsi.
En Svandís vildi slaka á umhverfis- og heilsuvernd að þessu leyti og fá sérstaka undanþágu fyrir Ísland til að meira gæti gufað upp af bensíni. Það kemur auðvitað á óvart. En skýring íslenskra stjórnvalda á tilslökuninni er þessi: „Þróuð hefur verið nýstárleg aðferð á Íslandi til að framleiða endurnýjanlegt metanól.“
Hér voru íslensk stjórnvöld því að sækja um undanþágu frá heilsuverndarmörkunum fyrir Carbon Recycling International sem framleiðir metanól ætlað til íblöndunar í bensín. Metanólíblöndun snarhækkar gufuþrýsting bensíns.
Carbon Recycling International komst í fréttir á dögunum þegar í ljós kom að fyrirtækið hafði sent atvinnuvegaráðuneytinu drög að lagafrumvarpi sem færa átti fyrirtækinu mikil viðskipti. Drögin urðu nær efnislega óbreytt að lögum nokkrum mánuðum síðar án þess að þingmönnum væri kynnt að fyrirtækið hefði samið frumvarpið.
Það er ekki hægt að segja annað en að það sé ágæt þjónusta við fyrirtæki þegar það fær að semja lögin í landinu, stýra samningsmarkmiðum Íslands í viðræðum við ESB og hnika til alþjóðlegum heilsu- og umhverfisverndarviðmiðum.