Vefþjóðviljinn 347. tbl. 17. árg.
Þegar fylgst er með umræðum alþingismanna um fjárlög næsta árs kemur vaknar oft spurning um raunveruleikaskyn hinna háttvirtu þingmanna. Þingmenn takast reiðir á um hundrað milljónir hér og þar, en láta sér ekki koma til hugar að breyta þurfi verulega um hugsun í ríkisfjármálum.
Ríkissjóður skuldar gríðarlegar fjárhæðir. Hann þarf að greiða vexti af þeim á næstu árum. Það eru peningar sem hann mun taka af landsmönnum með þungri skattheimtu.
Fjárlagafrumvarpið var í upphafi miðað við fimm hundruð milljóna afgang. Svo lítill afgangur er gagnslaus. Og reynslan á allra síðustu árum er auk þess sú að reksturinn er mörgum tuga milljarða króna verri en þó var gert ráð fyrir í fjárlögum.
Hvernig halda menn að það gangi að ná skuldum ríkissjóðs niður með hálfan milljarð króna í fjárlagaafgang á hverju ári? Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, reiknaði það út í grein í Morgunblaðinu fyrir nokkru. Vill einhver vita hvað það tæki langan tíma, á núverandi hraða?
Það tækist árið 5918.
Það þarf gríðarlegan niðurskurð ríkisútgjalda. Niðurskurð sem er þess eðlis að hlutverk ríkisins verður allt annað en verið hefur. Aukin skattheimta á fólk og atvinnulífið er ekki leiðin til að auka verðmætasköpun í landinu. Það þarf að lækka skatta til að gefa fólki og fyrirtækjum meira svigrúm til að skapa verðmæti og til að ráða eigin lífi. Það eru opinberu útgjöldin sem verður að skera niður alveg gríðarlega. Það sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu og ráðherrarnir halda að sé þrekvirki, skiptir nær engu máli.