Fimmtudagur 12. desember 2013

Vefþjóðviljinn 346. tbl. 17. árg.

Gefur þetta tæki nægilega gott svar við því hvað menn eiga að kjósa?
Gefur þetta tæki nægilega gott svar við því hvað menn eiga að kjósa?

Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sögðu í dag að betra hefði verið að nýta það fé, sem ríkið fær hugsanlega inn með bankaskatti, til að lækka skuldir ríkisins en að lækka skuldir þeirra sem tekið hafa lán til að kaupa sér húsnæði. Þótt Vefþjóðviljinn sé alls ekki alltaf sammála starfsmönnum sjóðsins, þá er þetta alveg rétt hjá þeim.

Slíkar hugleiðingar hafa auðvitað ekki mikla raunhæfa þýðingu til skamms tíma. Eftir að kosningabaráttan í vor varð að uppboðsmarkaðri af nýrri stærð, hefði líklega verið pólitískt óframkvæmanlegt að fara ekki út í einhverjar viðbótaraðgerðir fyrir skuldara. Viðbótaraðgerðir umfram vaxtabætur, sem nema verulegum fjárhæðum úr ríkissjóði ár hvert, og ýmsar reglur sem settar hafa verið um greiðsluaðlögun og hindranir á möguleikum til að innheimta skuldir. Það hefur nefnilega ýmislegt verið gert fyrir skuldara.

Það versta við kosningabaráttuna síðasta vor var ekki það að hversu dýr kosningaloforðin urðu. Verri var hugarfarsbreytingin sem lýsir sér í því að menn sjá ekkert að því setjast niður með reiknivélina og ráðstafa svo atkvæði sínu eftir því sem virðist koma sér best í heimabankanum á þeirri stundu.

Kosningar eiga að snúast um aðra hluti en þá hversu mörgum krónum hver flokkur er tilbúinn að lofa stórum kjósendahópum úr ríkssjóði. Menn eiga að ráðstafa atkvæði sínu eftir grundvallarsjónarmiðum frekar en slíkum tilboðum. Ef grundvallarsjónarmiðin víkja en athygli hvers kjósanda verður eingöngu á hans eigin talningu á þeim krónum sem eru í boði frá ótal flokkum, þá getur farið illa með tímanum. Kosningar eiga ekki að snúast um að hver kjósandi reyni að ná sem mestu úr ríkissjóði.

Það er ekki gott ef ekki aðrir verja atvinnufrelsi en þeir sem ætla að stunda atvinnurekstur. Það er ekki gott ef ekki aðrir verja tjáningarfrelsi en þeir sem ætla að gefa út blað eða reka útvarpsstöð. Það er ekki gott ef menn hætta að verja eignarréttinn í landinu af grundvallarástæðum og byrja að velta fyrir sér hvort þeir sjálfir gætu kannski fengið eitthvað í sinn hlut ef eignarréttur annarra yrði skertur.

Kosningar og stjórnmál eiga að snúast um grundvallaratriði. Og þess vegna þurfa menn stundum að kjósa einhvern annan en þann sem lofar þeim flestum krónum á annarra kostnað.