Mánudagur 2. desember 2013

Vefþjóðviljinn 336. tbl. 17. árg.

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við austri ríkisstjórnarinnar á skattfé til þeirra sem skulda verðtryggð húsnæðislán verða æ stjórnarandstöðulegri.

Fyrst heyrðust nokkur orð sem mátti jafnvel kalla skynsamleg. Einhverjir lýstu áhyggjum af fjármögnun aðgerðanna og aðrir sögðu að nota mætti peningana í aðra hluti. Í heilbrigðismál, menntamál, niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs.

Þetta voru fyrstu viðbrögð. En svo virðast stjórnarandstöðuleiðtogarnir hafa skynjað þjóðfélagsumræðu þannig að mikil ánægja væri með tillögurnar. Þá breyttust viðbrögð þeirra líka.

Þá varð aðalmálið að aðgerðirnar verða ekki nægilega dýrar. Þið lofuðuð að þær myndu kosta 300 milljarða, er sagt við þá sem aldrei hafa hótað því. Þetta kostar ekki nema 80 milljarðra, það eru mikil svik, segja þeir sem daginn áður höfðu miklar áhyggjur af fjármögnuninni.

Það er eins og svo oft áður. Maturinn er alveg óætur. Og skammtarnir of litlir.

Nýjasta útgáfan af gagnrýninni er svo sú sem lögð var mikil áhersla á í þinginu í dag, að stjórnarandstaðan hefði ekki fengið sérstakan kynningarfund fyrir sig, áður en tillögurnar voru kynntar opinberlega. Það átti sem sagt að draga menn á þessu, til að reyna að minnka líkurnar á því að Árni Páll, Katrín, Guðmundur og Birgitta segðu eitthvað vanhugsað. Góðir Íslendingar, við höfum hér fullmótaðar tillögur sem margir hafa víst verið að bíða eftir mjög lengi. En við ætlum ekki að segja ykkur strax hverjar þær eru, því Árni Páll, Katrín, Guðmundur og Birgitta verða að fá námskeið í þeim fyrst, svo þau segi enga vitleysu.

Birgitta Jónsdóttir kvartaði svo yfir því að henni hafði ekki verið leyft að bera fram spurningar á blaðamannafundinum sem haldinn var til kynningar á tillögunum. Það er nú einmitt það sem vantar, að þingmenn mæti líka á blaðamannafundi og byrji að spyrja spurninganna þar. Já, orðið er laust, ert þú frá Sjónvarpinu, nei bíddu aðeins, það er hérna spurning frá Guðbjarti Hannessyni, gerðu svo vel Guðbjartur.