Vefþjóðviljinn 337. tbl. 17. árg.
Það er ánægjulegt að heyra að ráðamenn þjóðarinnar ætla að koma í veg fyrir það tjón sem lög Steingríms J. Sigfússonar um íblöndun „endurnýjanlegs“ eldsneytis myndu valda kæmust þau til framkvæmda nú um áramótin.
Í umræðum í tilefni aldarafmælis Morgunblaðsins 1. desember sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um reglurnar sem streyma frá Brussel:
Við höfum oft Íslendingar verið kaþólskari en páfinn við innleiðingu þessa regluverks. Í stað þess að uppfylla lágmarkskröfurnar og aðlaga þetta að íslenskum aðstæðum.
Forsætisráðherra var þá spurður hvort íblöndunarmálið væri ekki dæmi um tilskipun frá ESB sem Íslendingar virtust vera að innleiða fyrr en þyrfti að gera og án þess að sækja um undanþágu. Og ráðherrann svaraði:
Einmitt. Enda er þetta mjög dýrt og við þessu er verið að bregðast í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Formaður þeirrar nefndar Frosti Sigurjónsson hefur skoðað þetta gaumgæfilega og mun eflaust vinna á þessum vanda.