Helgarsprokið 1. desember 2013

Vefþjóðviljinn 335. tbl. 17. árg.

Eitt mikilvægasta stjórnmálaverkefni frjálslynds fólks á næstu árum, er að berjast fyrir hugarfarsbreytingu til ríkisins.

Undanfarin ár hafa stjórnlyndir menn, stjórnmálamenn og embættismenn, aukið barnfóstruhlutverk hins opinbera mjög verulega. Er hér ekki sérstaklega horft til vaxandi hlutar hins opinbera í því að sinna börnum, heldur þá hratt vaxandi tilhneigingu stjórnmálamanna og embættismanna til að líta á fullorðna borgara sem börn, sem ríkinu sé rétt og skylt að hafa vit fyrir.

Og það eru ekki eingöngu stjórnmálamenn og embættismenn sem hafa í stórauknum mæli tekið að líka á venjulegt fólk sem varnarlaus börn. Sífellt fleiri einstaklingar virðast ekki sjá neitt að því að heimta að ríkið verndi þá sjálfa, fyrir slæmum afleiðingum eigin ákvarðana. Sífellt fleiri krefjast þess að vera bannað að taka ákvarðanir sem geta komið þeim í koll síðar. Sífellt feiri krefjast þess að ríkið bæti þeim tjón, sem þeir hafa hlotið af eigin ákvörðunum, sem hafa farið allt öðru vísi en þeir héldu í upphafi.

Frjálslynt fólk þarf að berjast gegn þessu. Það þarf að taka eindregna afstöðu gegn barnfóstru-ríkinu. Gegn ríkinu sem bannar fólki að taka áhættu, sem bannar fólki að ráðstafa eigin hagsmunum. Barnfóstru-ríkið kann að forða einhverjum frá því að baka sjálfum sér tjón. En barnfóstru-ríkið tekur í sívaxandi mæli af fólki ábyrgðina á eigin lífi.

Hvers vegna á ríkið að skipta sér af því hvernig fólk semur um eigin mál? Ef manni býðst lán á háum vöxtum, og hann metur hagsmuni sína af því að fá lánið meiri en að taka það ekki og sleppa við vaxtabyrðina, hvers vegna á ríkið að banna honum það? Hvers vegna á ríkið að skipta sér af svikalausum viðskiptum? Vegna þess að einhverjir munu semja af sér? Vegna þess að einhverjir munu ekki skilja hvað þeir skrifa undir?

Hvers vegna er alltaf verið að taka af fólki ábyrgðina á eigin lífi? Hvers vegna eru stjórnmálamenn og embættismenn alltaf að segja fólki að það viti ekki hvað því er fyrir bestu?

Ein ástæðan fyrir því að frjálslynt fólk á að berjast gegn barnfóstru-ríkinu er sú að barnfóstru-sinnar munu aldrei hætta. Þeir munu aldrei segja að nú sé komið nóg, nú þurfi ekki að setja nákvæmari reglur á neinu sviði, að nú sé komið að því að fólk megi standa á eigin fótum, að nú þurfi ekki að vernda fólk frekar fyrir eigin mistökum.

Barnfóstru-sinnar munu alltaf halda áfram. Þeir munu alltaf finna nýja samninga sem fólk má ekki gera, nýjan útbúnað sem það má ekki nota nema vera með hjálm, nýja vöru sem það má ekki kaupa nema á henni sé límmiði frá landlækni, ný lán sem fólk má ekki taka nema hafa farið í greiðslumat, og svo framvegis.

Við hverja nýja slíka reglu stækkar ríkið en einstaklingurinn minnkar. Og sú tilfinning hans sjálfs, að hann beri sjálfur ábyrgð á eigin farsæld, minnkar. Samtímis minnkar tilfinning manna fyrir því að þeir megi ekki neyða gildismat sitt upp á annað fólk.

Með auknu barnfóstru-hlutverki ríkisins dofnar skilningur fólks á því hvað felst í því að vera frjáls maður. Í því felst að mega sjálfur taka allar helstu ákvarðanir um eigið líf og fá að lifa lífi sínu sem allra mest eftir eigin gildismati en ekki annarra. Í því felst líka að menn taka ákvarðanir sem einhverjum þykja rangar, og mönnum sjálfum kannski síðar. En þær ákvarðanir eru þó manns eigin en ekki annarra.