Vefþjóðviljinn 333. tbl. 17. árg.
Vefþjóðviljinn rakst á mann á dögunum. Hann var í nýrri og fallegri skyrtu. Hvað borgaðir þú fyrir skyrtuna? spurði Vefþjóðviljinn. Hún kostaði mig ekki neitt, sagði maðurinn. Ég bætti bara við mig aukavinnu á verkstæðinu og það dugði fyrir henni.
Ríkisstjórnin mun víst á morgun kynna tillögur sínar um hvernig skattpeningum verði varið til þess að lækka ákveðnar skuldir einstaklinga. Sumir þeir sem þegar eru farnir að ræða væntanlegar tillögur tala eins og þær muni ekki kosta ríkið neitt. Það verði einfaldlega lagður sérstakur skattur á þrotabú fallinna banka, og þeir peningar notaðir til skuldalækkana.
Nú er auðvitað of snemmt að segja til um hvað stjórnvöld leggja til. En það er nauðsynlegt að leggja áherslu á að ef tillögurnar gera ráð fyrir að peningar fari úr ríkissjóði til að lækka skuldir einhvers hóps manna, þá munu tillögurnar kosta ríkissjóð peninga. Ef þrotabú bankanna greiða ríkinu nýjan skatt, þá fer sá skattur í ríkissjóð.
Jafnvel þótt ríkið bæti við sig tekjum með sérstakri nýrri skattheimtu, þá kostar það ríkið að nota þær tekjur. Ef ríkið leggur nýjan skatt á einhverja aðila, hvort sem það eru bankar, bílaverkstæði, bakarí eða fólk með milljón á mánuði, þá fara þeir nýju skattpeningar inn í ríkissjóð. Þegar peningarnir eru þangað komnir geta þingmenn svo valið í hvað þeir vilja eyða þeim. Borga skuldir ríkisins, kaupa tæki á Landspítalann eða hvað annað sem þingmönnum dettur í hug. Og þeir geta líka ákveðið að nota peningana í að borga inn á skuldir þeirra sem tóku lán sem þeim finnst hafa hækkað miklu meira en þeir héldu þegar þeir skrifuðu undir.
Allt er þetta pólitísk ákvörðun á hverjum tíma. En það er alger misskilningur ef einhver heldur að eyðslan, hver sem er valin, kosti ríkið ekki neitt af því að það fékk peninginn með nýum skatti.
Allir sjá að maðurinn sem heldur að nýja skyrtan hafi ekki kostað sig neitt, fyrst hann borgaði hana með eftirvinnulaununum, hefur rangt fyrir sér. Það gildir alveg það sama þótt fjárhæðirnar séu hærri en skyrtuverð. Ef hann hefði keypt milljón skyrtur og unnið aukavinnu í milljón klukkutíma til að eiga fyrir þeim.