Fimmtudagur 28. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 332. tbl. 17. árg.

Gera þarf dýrar breytingar á olíubirgðastöðvum og kaupa inn miklu dýrara eldsneyti til landsins til að uppfylla lög um svokallað endurnýjanlegt eldsneyti.
Gera þarf dýrar breytingar á olíubirgðastöðvum og kaupa inn miklu dýrara eldsneyti til landsins til að uppfylla lög um svokallað endurnýjanlegt eldsneyti.

Það kemur skýrt fram í frétt Morgunblaðsins í dag, rétt eins og í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld, að lög um svonefnt endurnýjanlegt eldsneyti muni snarhækka innkaupsverð á eldsneyti til Íslands og einnig dreifingarkostnað innanlands.

Framkvæmdastjóri Atlantsolíu segir í Morgunblaðinu í dag að fyrirtækið þurfi að kaupa inn dýra lífolíu og leggja í 150 milljóna króna breytingar á birgðastöð sinni vegna laganna.

Forstjóri Skeljungs segir að innkaupsverð fyrirtækisins á eldsneyti verði 200 milljónum króna hærra á næsta ári en ella.

Árið 2015 hækkar svo lagaskyldan um endurnýjanlegt eldsneyti enn frekar og þar með gjaldeyrisútgjöldin fyrir Ísland. Þá má gera ráð fyrir að yfir þúsund milljónir á ári fari í súginn.

Hvernig má það vera að í landi gjaldeyrishafta þar sem almenningur þarf að framvísa farseðli og persónuskilríkjum til að fá náðarsamlegast 100 dollara í farareyri að það sé leitt í lög að kaupa þurfi inn eldsneyti sem er mörgum milljónum dollara dýrara en þyrfti?

Alþingi hefur enn færi á að breyta þessu ólögum sem eiga að koma til framkvæmda um næstu áramót.