Vefþjóðviljinn 324. tbl. 17. árg.
Svo virðist sem margir séu nú spenntir eftir að heyra tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar. Sumir bíða eftir að ríkið bæti hjá þeim skuldastöðuna, aðrir bíða eftir að geta sagt að tillögurnar séu ekki í neinu samræmi við loforðin, sem enginn bendir þó á hver hafi verið.
En enginn þessara manna mun heyra neinar tillögur um skuldaleiðréttingar. Ríkisstjórnin mun ekki gera neinar tillögur um skuldaleiðréttingar.
Svo það sé sagt aftur: Það verða engar skuldaleiðréttingar.
Það er ekki hægt að leiðrétta annað en það sem er rangt. Enginn heldur því fram að lánin séu rangt reiknuð. Sumum finnst hins vegar sanngjarnt að skuldir þeirra lækki en það er allt annar hlutur. Ef lánin væru rangt reiknuð þyrfti engar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þá gætu menn bara reiknað aftur og fengið leiðréttingu.
Þegar fréttamenn tala um „skuldaleiðréttingar“, eru þeir að gefa ranga mynd af því sem stendur víst til.
Það sem stjórnvöld ætla víst að gera, er að nota fé úr ríkissjóði til að lækka sumar skuldir einhverra lántakenda. Menn geta verið hlynntir því eða andvígir, en þetta er það sem málið snýst um. Hvaðan sem peningarnir koma í ríkissjóð, hvort sem það er með því að leggja á skatta, semja um framlög í ríkissjóð frá kröfuhöfum bankanna, taka lán eða selja ríkisfyrirtæki, þá koma peningarnir í ríkissjóð, og þaðan getur Alþingi svo auðvitað veitt þeim í þetta verkefni, ef það vill. En þá á einfaldlega að segja það hreinskilnislega.
Það er þetta sem stendur til. Greiðsla úr ríkissjóði til að lækka einhverjar tilteknar skuldir einkaaðila.