Vefþjóðviljinn 323. tbl. 17. árg.
Í dag mun stór hluti landsmanna sitja við sjónvarpsskjáinn og fylgjast með útsendingu Ríkissjónvarpsins á leik íslenska landsliðsins – sem fréttamenn Ríkisútvarpsins muna alltaf eftir að nefna karlalandsliðið – við það króatíska. Lýsarar leiksins munu lifa sig inn í hann og ekki fela hvort liðið þeir styðja.
Næstum engum mun finnast það athugavert. En hversu lengi ætli það verði? Hvenær ætli einhver fari að berjast fyrir að starfsmenn Ríkisútvarpsins gæti hlutleysis í íþróttalýsingum í landsleikjum?
Flestum finnst sjálfsagt að sá sem lýsir ójöfnum leik Vals og KR sé hlutlaus, en finnst ekkert óeðlilegt við að sá sem lýsir landsleiknum haldi eindregið með „okkur“.
Sem er ágætt og notalegt. En einhvern tíma munu eflaust koma víðsýnir fjölmenningarmenn og segja af gæðum sínum að nú séu margir íslenskir ríkisborgarar af erlendum uppruna og þeir eigi ekki að þurfa að sitja undir því að lýsendur í opinberu útvarpi geri upp á milli landsliða.
Svo munu þessir víðsýnu menn auðvitað síðar komast að því að það sé brot á jafnræði og íþróttafrelsi að í íþróttafréttum sé meira sagt frá íslenskum landsliðum en öðrum.
Þótt mikill meirihluti Íslendinga haldi með íslenska landsliðinu og þótt íslensk landslið, saga þess og helstu leikir, eigi sinn sess í vitund fjölmargra, þá skipti það engu máli. Hér séu menn sem ekki deili þessari skoðun og eigi þess vegna rétt á því að ekki sé um hana fjallað á opinberum stöðum. Lágmarkskrafa sé að ef fjallað verði um eitt landslið, þá verði fjallað um þau öll. Ef senda á út leiki íslenska landsliðsins, þá verði að senda út alla aðra leiki líka.
En vonandi verður ríkið þá hætt sjónvarpsrekstri.