Vefþjóðviljinn 319. tbl. 17. árg.
Eftir að fréttir bárust af því að ríkisstjórnin hygðist skipta um stjórnarmenn í ríkisfyrirtækjum og hefði beðið stjórnarandstöðuna um að tilefna fulltrúa af sinni hálfu í nýjar stjórnir, fór af stað venjuleg frasa-umræða. Eins og svo oft voru aðalatriði málsins víðsfjarri.
Menn geta deilt um það hvort ríkið á að eiga fleiri eða færri fyrirtæki og stofnanir. Vefþjóðviljinn vill vitaskuld að þau séu sem fæst. En svo lengi sem ríkið á fyrirtækin eiga stjórnmálamenn að velja stjórnarmennina og þar á þingstyrkur hverju sinni að skipta máli. Það er grundvallaratriði að stjórnarmenn ríkisfyrirtækja hverju sinni, séu valdir af þeim sem hafa lýðræðislegt umboð. Fastráðnir starfsmenn ríkisfyrirtækja eiga ekki að móta stefnu þeirra. Það eiga stjórnmálamenn með lýðræðislegt umboð að gera. Kjósendur geta svo skipt um valdhafa í næstu kosningum, ef þeim líkar ekki hvernig þeir hafa staðið sig.
Á haustfundi Landsvirkjunar talaði iðnaðarráðherra með öðrum hætti en forstjórinn. Það kallaði auðvitað á hefðbundna frasa um pólitísk áhrif á Landsvirkjun, að verið væri að „grafa undan forstjóranum“ og svo framvegis. En þeir sem þannig tala horfa alveg fram hjá því aðalatriði málsins að það er iðnaðarráðherrann sem hefur lýðræðislegt umboð en forstjórinn ekki. Forstjóri Landsvirkjunar á ekkert í fyrirtækinu. Hann hefur ekkert lýðræðislegt umboð. Hann er einfaldlega ráðinn til að framfylgja stefnu stjórnvalda. Ef hann og stjórnvöld greinir á um stefnu fyrirtækisins, þá eiga stjórnvöld að ráða.
Síðasta ríkisstjórn áttaði sig á þessu. Hún gerði Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrverandi þingflokksformann Samfylkingar, að stjórnarformanni Landsvirkjunar. Við því var ekkert að segja. Stjórnvöld á hverjum tíma eiga að ráða ferðinni hjá ríkisfyrirtækjum og velja þá í stjórn sem þau treysta.
Þeir sem nú tala um „pólitísk áhrif á Landsvirkjun“ hafa líklega einhverjir látið það hafa áhrif á sig að þeim líkar betur við stefnu forstjórans en stjórnvalda í landinu. En það er aukaatriði. Menn ættu að ímynda sér einfalt dæmi: Forstjóri Landsvirkjunnar er einlægur virkjunarsinni og telur að hagsmunum fyrirtækisins sé best borgið með því að allt sé virkjað sem mögulegt sé. Alltaf megi selja orkuna einhvern veginn. Ríkisstjórnin sé hins vegar þeirrar skoðunar að best sé að fara að öllu með gát, láta „náttúruna njóta vafans“ og rétt sé að virkja ekki meira næstu árin. Hver á þá að ráða? Auðvitað stjórnvöld. Ekki af því að þeirra stefna sé betri en forstjórans, heldur vegna þess að stjórnvöld hafa lýðræðislegt umboð frá kjósendum, en það hefur forstjórinn ekki.
Starfsmenn ríkisstofnana eiga ekki stofnanirnar, þó sumir þeirra hegði sér eins og þeir geri það. Æðsta vald í málefnum ríkisstofnana á að vera annars staðar. Þetta á við um Ríkisútvarpið, Landsvirkjun, Rarik, Vegagerðina og svo framvegis. Ríkið á að eiga sem allra fæstar slíkar stofnanir, en þær sem ríkið á, þar eiga stjórnvöld en ekki starfsmenn að ráða ferðinni.