Vefþjóðviljinn 311. tbl. 17. árg.
Þótt enginn hafi trúað að hægt væri að flækja kerfi vörugjalda og tolla hér á landi tókst síðustu ríkisstjórn þó hið ótrúlega.
Guðný Rósa Þorvarðardóttir, framkvæmdastjóri Parlogis ritar grein á Vísi í dag og vekur athygli á nokkrum flækjum:
Ríkissjóður hefur lengi notað vörugjöld á innfluttar vörur sem tekjuöflunarleið. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var samþykkt að fjölga vöruflokkum með þessum tollum, enda allra leiða leitað til að auka tekjur ríkissjóðs. Fljótt á litið virðist hugmyndafræðin hafa snúist um að setja toll á lúxusvörur sem fólk gæti verið án.
Vörugjöld voru því ekki sett á þær vörur sem embættismenn töldu vera nauðsynlegar neysluvörur, heldur sérvaldar vörur sem hugsanlega væru óhollar eða gætu flokkast sem óþarfar. Dæmi um þetta eru sykurvörur í flokki matvara sem bera vörugjöld og sambærilegar vörur sem innihalda ávaxtasykur án vörugjalda.
Í vörugjaldafrumskóginum bera tölvur og fylgihlutir engin vörugjöld. Hins vegar er lagt 25-30% vörugjald á hljómflutningstæki, útvörp og sjónvörp. Erfitt er að sjá af hverju þessi munur stafar enda tölvur notaðar til að horfa á sjónvarp auk þess sem hægt er að nota sjónvarp til að vafra á netinu. Þetta eru skýr dæmi þess að vörugjöld skekki samkeppnisstöðu sambærilegra vara.
Þá tekur Guðný Rósa undir þau orð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að innflutningsgjöld bitni fyrst og fremst á þeim sem hafi ekki efni á að ferðast til útlanda og viða að sér varningi án gjaldanna.