Miðvikudagur 6. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 310. tbl. 17. árg.

Nú hefur verið leitt í ljós, með mikilvægri rannsókn, að algengara sé að rætt sé við karla en konur í ljósvakafréttum. Rannsóknin fór fram á vegum Félags kvenna í atvinnurekstri, því auðvitað verða þær að hafa sérstakt félag. Það er alger misskilningur ef einhver heldur að slíkt félag sé til þess fallið að gefa þá mynd af konum í atvinnulífinu að þær geti ekki staðið á eigin fótum.

Hér er greinilega mikið óréttlæti á ferð, enda eru landsmenn aðeins tveir hópar, Karlar og Konur, og auðvitað skylt að ræða við jafnmarga úr hvorum hópi, helst í hverri frétt.

Í frétt Ríkissjónvarpsins af þessu alvarlega máli í gærkvöldi var rætt við þingmann Sjálfstæðisflokksins, Elínu Hirst. Hún sagði að niðurstöðurnar væru „mikið áhyggjuefni“. Ein skýring á þessu væri sú að „við erum með svo mikla fullkomnunaráráttu. Þetta verður allt að vera svo perfect hjá okkur, svo ég sletti, en þannig að ég, maður verður bara að vera breytingin sem maður boðar, og sagði einmtt við konur, alltaf þegar ég var að tala við þær, að fara í fjölmiðlaviðtöl, það bara, þær yrðu að láta allt annað til hliðar í raun og veru og láta fjölmiðlana ganga fyrir, vegna þess að það er svo mikilvægt fyrir okkur, í flestöllum störfum sem við gegnum, að miðla.“

En ef það er rétt hjá þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að konur séu með mikla „fullkomnunaráráttu“ sem karlar hafi ekki, hefur það þá ekki áhrif á flest annað sem bæði karlar og konur gera? Ef karlar og konur eru andlega ólík er þá alveg víst að konur og karlar séu jafn hæf til allra starfa og eigi að fá sömu laun fyrir „sömu vinnu“? Ef það er rétt hjá Elínu að konur sem heild og karlar sem heild séu ólík að þessu leyti, hefur það þá ekki áhrif á margt annað en það hversu reiðubúin þau eru til að fara í útvarpsviðtöl? Ef dæmigerð kona er, vegna einhverra sameiginlegra einkenna kvenna, ólíklegri en dæmigerður karlmaður til að vilja fara í viðtal, er þá ekki líklegt að þessi sameiginlegu einkenni verði til þess hún sé öðruvísi starfsmaður en dæmigerður karlmaður? Er þá eitthvert réttlætismál lengur að þau fái sömu laun fyrir vinnuna, svona ef kenning Elínar er rétt.

Mikið væri nú skemmtilegt ef einhver stjórnmálamaður þyrði að segja fréttamönnum að hætta þessu kynjatali. Heimurinn er einfaldlega fullur af ólíkum einstaklingum.