Vefþjóðviljinn 309. tbl. 17. árg.
Það er í raun mjög merkilegt að ríkissjóður standi illa. Með öll þessi útgjöld, sem að sögn viðtakenda eru gædd þeirri náttúru að þau skila „miklu meira til baka“.
Skýrasta dæmið er auðvitað kvikmyndagerð. Eins og allir kvikmyndagerðarmenn vita stórgræðir ríkið á því að styrkja kvikmyndagerðarmenn, því hver einasta króna sem ríkið styrkir kvikmyndagerðarmenn um, kemur „margföld til baka í ríkissjóð“. Ef menn hefðu bara vit á að margfalda styrkina til kvikmyndagerðarmanna þá yrði ríkissjóður fljótlega skuldlaus.
Svipaða sögu má víst segja af flestum ríkisútgjöldum. Þetta á allt að skila sér alveg margfalt til baka. Jafnvel tónlistarhúsið, það lokkar víst Íslendinga erlendis til að flytja heim og þeir byrja að skapa ofboðsleg verðmæti strax við komuna, á milli þess sem þeir fara á tónleika. Þetta á að vísu ekki við um lækna, en það er ekki að marka. Ríkið þarf bara að byggja einhverja risahöll undir þeirra áhugamál og þá koma þeir líka.
Þeir sem þiggja ríkisútgjöld og verja útgjöldin með kjafti og klóm eru alls ekki að hugsa um eigin hag. Þeir sjá ekkert nema hagsmuni ríkissjóðs. Þeir vita að öll þessi útgjöld eru í raun gullnáma fyrir ríkið. Því meiri útgjöld, því meiri peningar koma í kassann, síðar. Þeir eiga ekki nógu sterk orð um Vigdísi Hauksdóttur, en það er af umhyggju fyrir ríkissjóði.
Í gær fylltu vísindamenn þingpalla. Þeir vilja framlög til vísindarannsókna. Það er að segja framlög til þeirra sem stunda vísindarannsóknir. Þetta eru gríðarlega mikilvægar rannsóknir. Þær munu skila ofboðslegum verðmætum í ríkissjóð. Þetta er næstum eins og kvikmyndagerðin, gullnáman sú.
Í raun er varla vafi á því að ríkissjóður stefnir í ofboðslegan gróða eftir örfá ár. Því þrátt fyrir þá trú að verið sé að skera niður, þá eru ríkisútgjöldin ofboðsleg. Ráðherrarnir halda að þeir séu að gera eitthvað í því, en það er misskilningur. Niðurskurður er næstum enginn og skiptir nær engu máli.
Enn fara því tugir milljarða í framlög sem árum saman hafa komið „margföld til baka“.