Mánudagur 4. nóvember 2013

Vefþjóðviljinn 308. tbl. 17. árg.

Rætt var við Guðrúnu Rögnu Garðarsdóttur forstjóra Atlantsolíu í morgunþætti Bylgjunnar í morgun um ný lög um „endurnýjanlegt“ eldsneyti sem eiga að koma til framkvæmda um næstu áramót. Frumvarp Steingríms J. Sigfússonar um málið var keyrt umræðulaust í gegnum Alþingi í vor.

Ríkissjóður verður af tekjum, innkaupsverð eldsneytis til landsins hækkar, eldsneytisverð til neytenda hækkar að líkindum, bílarnir munu eyða meiru og útblástur eykst þar með. Hver er ekki að tapa á nýjum lögum um svokallað endurnýjanlegt eldsneyti?
Ríkissjóður verður af tekjum, innkaupsverð eldsneytis til landsins hækkar, eldsneytisverð til neytenda hækkar að líkindum, bílarnir munu eyða meiru og útblástur eykst þar með. Hver er ekki að tapa á nýjum lögum um svokallað endurnýjanlegt eldsneyti?

Í viðtalinu rakti Guðrún Ragna hve miklar breytingar þarf að gera á birgðastöðvum olíufélaganna vegna íblöndunarefna á borð við etanól. Það þarf að reisa nýja birgðatanka, setja upp blöndunartæki og endurskoða á eldvarnir. Til þess dugi tíminn til áramóta ekki.
Aðspurð um áhrifin á eldsneytisverð vegna þessara breytinga sagði Guðrún Ragna:

Tollar falla af þessu lífeldsneyti sem er flutt inn til landsins, etanólinu og lífdieselnum þannig að það verða ekki borgaðir skattar í ríkissjóð, ríkissjóður verður af einhverjum tekjum þarna. Eldsneytisverð mun að einhverju leyti kannski hækka, það fer eftir hvað þetta verða mikil umsvif, hvað kostnaður verður mikill.

Það sem mun líka breytast og fólk áttar sig kannski ekki á er að bílarnir munu eyða meiru. Af því að það er minni orka í þessu lífeldsneyti heldur en í venjulegu eldsneyti. Þið finnið kannski ekki fyrir því með lítilli blöndun eins og 3 eða 5% en þegar hún hækkar í 10% þá finnið þið fyrir því á bílunum ykkar að þeir munu eyða meiru eldsneyti.

Ríkissjóður verður af tekjum, innkaupsverð eldsneytis til landsins hækkar, eldsneytisverð til neytenda hækkar að líkindum, bílarnir munu eyða meiru og útblástur eykst þar með.

Hver er ekki að tapa á þessu?