Vefþjóðviljinn 301. tbl. 17. árg.
Síðustu daga hefur verið sagt frá því í fréttum að bandarískir njósnarar hafi lagst svo lágt að njósna, sem erlendum starfsbræðrum þeirra hefði aldrei dottið í hug að gera. Meðal þeirra sem njósnað hefur verið um eru leiðtogar ýmissa ríkja sem Bandaríkjamenn kalla nána vini sína, eins og Bandaríkjamenn kalla yfirleitt alla nema Rússa.
Hér á landi hefur verið spurt hvort vera kunni að Bandaríkjamenn hafi jafnvel hlerað síma Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, á meðan þau stjórnuðu landinu svo farsællega. Það mál verður að upplýsa og grípra til harðra ráðstafana ef í ljós kemur að símar leiðtoga landsins hafi verið hleraðir.
Raunar er þetta mál svo alvarlegt, að ríkisstjórnin hlýtur að gera þá kröfu að ef í ljós kemur að Bandaríkjamenn hafa hlustað á Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon, þá verði þeir í refsingarskyni neyddir til að halda því áfram.