Helgarsprokið 27. október 2013

Vefþjóðviljinn 300. tbl. 17. árg.

Það kemur nokkuð á óvart að félagshyggjumenn á borð við Stefán Ólafsson prófessor og Egil Helgason hjá Ríkisútvarpinu virðist nær eingöngu bregða einum mælikvarða á lífsgæði – eða jöfnuð – í þjóðfélaginu, krónur og aura. Þetta hefur reyndar loðað við ýmsa hægrimenn, ekki síst tæknilega töfluspekinga sem nærast nær eingöngu á hagtölum. En hagtölur eru ekki aðeins ónákvæmar í sjálfu sér heldur myndu þær segja takmarkaða sögu um aðstæður mannsins jafnvel þótt þær væru nákvæmar.

Stefán og fylgismenn hans á Eyjunni benda á þetta myndaband sem sýnir skiptingu auðs í Bandaríkjunum. Það sýnir að ríkasta 1% landsmanna er nánast óendanlega auðugt á meðan 10% eru nánast allslaus, mælt í krónum og aurum.

Félagshyggjumenn virðast gleyma því að lífsgæði mælast á annan hátt en í tekjum og auðsöfnun. Það er nánast kjánalegt að þurfa að nefna þetta. Gæfa manna og raunveruleg lífgæði ráðast af svo mörgu öðru en stöðunni á bankareikningnum. Og margt af því er jafnvel ekki hægt að kaupa, sama hve digur sem sjóðurinn er. Almennilegur maki og heilbrigð og kát börn eru til að mynda fyrir utan mælikvarða Stefáns Ólafssonar og vina hans í Ameríku með tekjuskiptingargröfin sín. Sömuleiðis almenn mannréttindi.

Annað sem þessi tekjuskiptingargröf sýna ekki er hvort það er sama fólkið sem situr í hverjum tekjuhópi ár frá ári. Nánast allir þekkja að tekjur eru litlar í upphafi starfsævinnar, að ekki sé minnst á námsárin, en aukast svo um miðbik hans og dragast að lokum saman. Enda er fólk á fleygiferð milli þessara tekjuhópa, bæði upp og niður. Það virðist til að mynda reynsla síðustu áratuga að yfir 40% þeirra sem eru í efstu og neðstu tekjufimmtungunum færist til á 10 árum. Þetta er útskýrt ágætlega á myndbandinu hér til hliðar.

Alþjóðavæðingin og upplýsingatæknin hefur svo gert mönnum mögulegt að efnast mjög mikið á nánast augabragði. Nýjungar fara um netið og breyta „brottföllnum“ menntaskólanemum úr öreigum í milljarðamæringa á nokkrum dögum. Milljarðar manna eru orðnir hluti af sama óseðjandi markaðnum og þegar stórum hluta þeirra líkar nýjung verður einhver „ógeðslega ríkur“. Um leið verða hinir tekjulægstu hlutfallslega fátækari, jafnvel þótt þeir séu einnig að auka tekjur sínar.

Og þar er nú mergurinn málsins. Þvert á það sem áróðursmyndböndin um tekjuskiptinguna gefa til kynna þá eru allir tekjuhópar að bæta stöðu sína. Ríka fólkið er ekki að verða ríkara á kostnað hinna fátæku heldur eru allir að fá stærri sneið af kökunni því hún heldur áfram að stækka.