Vefþjóðviljinn 298. tbl. 17. árg.
Ríkissjóður heldur áfram að styrkja mikilvæg verkefni. Í gær afhenti Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra fimm styrki úr „Jafnréttissjóði“, til afar mikilvægra vísindarannsókna „á sviði jafnréttis og kynjafræða“, en þessar rannsóknir þoldu ekki bið.
Það er svo auðvitað gleðilegt að þeir einstaklingar, sem valdir voru sem styrkþegar Jafnréttissjóðs, eru allir konur. Því verður enginn kynbundinn launamunur við úthlutun styrkfjárins.
Rannsóknirnar sem styrktar voru eru hver annarri mikilvægari. Sem dæmi skal hér tekin rannsóknin „Hin íslenska móðir – orðræða og upplifun“, en styrkþeginn er Sunna Kristín Símonardóttir kynjafræðingur og doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands. Markmið verkefnisins „er að skoða hvernig íslenskar konur upplifa og aðlaga sig að móðurhlutverkinu, auk þess að skoða ráðandi orðræður um móðurhlutverkið sem menningarlega og sögulega ákvarðað atferli. Rannsóknin skoðar með hvaða hætti orðræða hins „náttúrulega“ birtist á Íslandi þegar kemur að barneignum og umönnum barna og skoða hvernig merkimiðarnir um hina „góðu“ og „slæmu“ móður eru notaðir til þess að stjórna valkostum og hegðun kvenna. Byggt er bæði á eigindlegum og megindlegum rannsóknaraðferðum.“ Styrkurinn nemur 2.250.000 krónum og hefði ríkið ekki getað varið peningunum betur.
Hinir styrkirnir eru, ef eitthvað er, jafnvel enn mikilvægari, enda mjög vandaðar vísindarannsóknir stundaðar í kynjafræði og glæsilegt hvernig hún hefur á örfáum misserum breiðst út um skólakerfið. Ekkert hefur heyrst af því að nýr menntamálaráðherra hyggist vinda ofan af þeirri þróun, svo hún er greinilega komin til að vera.