Vefþjóðviljinn 296. tbl. 17. árg.
Einn af þeim stjórnmálamönnum sem mest hafa fram að færa til skynsamlegrar stjórnmálaumræðu, er Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur að vísu ekki haldið þingræðu um gallabuxur, eins og einn þingmanna flokksins í sama kjördæmi, en hefur vit á ýmsum öðrum málum.
Í dag skrifar hann grein í Morgunblaðið um þær villigötur sem stjórnvöld eru á við fjárlagagerðina. Óli Björn segir að í landinu sé almenn sátt um grunnhlutverk ríkisins, þó deilt sé um hversu langt skuli ganga á hverju sviði þar. Þessi grunnhlutverk séu að tryggja heilbrigðisþjónustu, menntun og mannlega reisn en í því felist að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, og tryggja innra og ytra öryggi ríkisins, setja lög og reglur, sinna samskiptum við önnur lönd og tryggja innviði samgöngukerfisins.
Þetta telur Óli Björn vera grunnhlutverk ríkisins og bendir á að samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi séu nær 136 milljarðar króna settir í annað en það sem teljist frumskylda ríkisins. Við þetta bætist nær 85 milljarðar í vaxtagreiðslur vegna skuldasöfnunar á síðustu árum og alls séu því 220 milljarðar króna, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, utan þess grunnhlutverks sem ríkið hafi.
Þetta er mikilvæg ábending hjá Óla Birni. Hvernig væri nú að menn tækju höndum saman á þingi og breyttu fjárlagafrumvarpinu þannig að verulega verði skorið niður í þeim hlutum fjárlagafrumvarpsins sem er utan þess sem Óli Björn kallar grunnhlutverk ríkisins? Samkvæmt frumvarpinu fara um 135 milljarðar króna til verkefna utan þessa grunnhlutverks og utan vaxtagreiðslna. Þar hlýtur að mega skera myndarlega niður. Óli Björn leggur til að þessum fjármunum verði í raun skipt í fernt. „Hluti þeirra gæti runnið í heilbrigðiskerfið, hluti í ýmislegt sem talið er nauðsynlegt en er utan grunnrammans, eitthvað gæti farið aftur til skattgreiðenda í formi skattalækkana og hluta væri skynsamlegt að nýta til að greiða skuldir. Þetta væri hin raunverulega forgangsröðun.“
Þingmenn stjórnarflokkanna ættu að taka tillögur Óla Björns til mjög alvarlegrar athugunar. Þeir geta ekki verið þekktir fyrir að halda bara áfram sömu stefnu og Steingrímur og Jóhanna.