Vefþjóðviljinn 295. tbl. 17. árg.
Samkvæmt skoðanakönnunum minnkar fylgi Framsóknarflokksins jafnt og þétt. Á því hefur fyrst og fremst verið gefin sú heldur einfeldningslega skýring að þetta sýni „óþreyju kjósenda sem bíða eftir skuldaleiðréttingum“.
Sú skýring er ekki eins sennileg og ýmsir stjórnmálaskýrendur halda.
Hún væri hins vegar trúlegri ef forystumenn Framsóknarflokksins hefðu dregið í land eftir kosningar, sagðist hættir við öll loforð og ætlist nú til þess að skuldarar borgi skuldir sínar sjálfir. Það hefur forysta Framsóknarflokksins ekki gert heldur þvert á móti.
Frá kosningum hafa forystumenn Framsóknarflokksins fremur gefið í og talað eins og svo miklar skuldir verði greiddar af öðrum en skuldurunum sjálfum, að slíkt sé óþekkt í heiminum. Formaður flokksins segir undirbúningsvinnu við þetta ganga vel og að allt sé á áætlun. Aðrir flokkar hafa minna sagt og gefið færri loforð.
Hvers vegna ættu þeir, sem eru „óþreyjufullir“ eftir því að aðrir borgi skuldirnar þeirra, að hverfa frá Framsóknarflokknum við þessar aðstæður? Ekki bjuggust þeir við því að fá ávísanir sendar í pósti í sumar, því jafnvel framsóknarmenn tóku fram í kosningabaráttunni að eftir væri að útfæra þetta allt saman og allt væri þetta tengt því að „svigrúm“ skapaðist á kjörtímabilinu með samningum við kröfuhafa bankanna.
Enginn átti því að hafa væntingar um neinar aðgerðir í þessum málum í sumar eða haust, jafnvel þótt Framsóknarflokkurinn hefði fengið hvert einasta þingsæti í kosningunum.
Fréttaskýrendur horfa alveg fram hjá þessu. Þeir útskýra aldrei hvers vegna þeir, sem vilja að ríkið losi þá við skuldir og láta þann vilja ráða atkvæði sínu, ættu að hafa snúið baki við Framsóknarflokknum.
En öðru gleyma bæði stjórnmálaskýrendur og framsóknarmenn. Fylgisaukning Framsóknarflokksins í vor var engin fjölgun framsóknarmanna. Hópur kjósenda sá persónulegan hag fyrir sig í því að tiltekinn flokkur kæmist til valda í eitt skipti. Það tókst. Þessir kjósendur þurfa ekki að kjósa Framsóknarflokkinn aftur. Það kemur „óþreyju“ þeirra ekkert við. Þeir komu þeim að sem ætla að lækka hjá þeim skuldirnar, en þeir urðu ekki framsóknarmenn við það.
Sumir framsóknarmenn halda að nú þurfi þeir að dæla peningum úr ríkissjóði til skuldara, til þess að endurheimta fylgisaukninguna síðasta vor. En hvers vegna ætti það að skila þeim fylgi í næstu kosningum? Þeir sem kjósa hæstbjóðanda hverju sinni, munu kjósa eftir því hver lofar mestu næst. Ekki eftir því hver borgaði mest síðast.
Það er gallinn við það að fá fylgi með einskiptisloforði. Menn fá bara einskiptisfylgi. Þeir sem vilja fylgi til lengri tíma verða að berjast fyrir grundvallar stjórnmálaskoðunum, sem þeir þora að boða, verja og berjast fyrir allt kjörtímabilið. Nokkrir helstu forystumenn Framsóknarflokksins sýndu á síðasta kjörtímabili að þeir geta verið slíkir stjórnmálamenn. En síðasta hálfa árið hefur því miður annað verið uppi á teningnum.