Vefþjóðviljinn 287. tbl. 17. árg.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrigrænna, hefur nú lagt það til að sjávarútvegsfyrirtækin í landinu leggi fram peninga til að styrkja Landspítalann. Þessir peningar eiga auðvitað að koma til viðbótar því sem sjávarútvegsfyrirtækin í landinu greiða þegar í ríkissjóð, bæði með hefðbundnum sköttum og svo sérstöku gjaldi sem er lagt á þau ofan á alla aðra skattheimtu, til að róa æsingamenn í landi.
Þessi tillaga þingmannsins virðist auðvitað vera hreint lýðskrum, ætlað til þess að hitta í mark hjá þeim hópi manna sem hefur sjávarútveginn á heilanum.
En hugsanlega er Lilja Rafney tilbúin til að sýna að hugur fylgir máli.
Sjávarútvegurinn greiðir gríðarlega fjármuni í ríkissjóð á hverju ári. En til eru þeir sem fá greiðslur úr ríkissjóði, jafnvel verulegar fjárhæðir á hverju ári.
Þar á meðal eru stjórnmálaflokkarnir. Vinstrihreyfingin grænt framboð mun að óbreyttum lögum fá hundruð milljóna króna styrk úr ríkissjóði á þessu kjörtímabili. Hvernig væri að Lilja Rafney Magnúsdóttir beitti áhrifum sínum, sem eru líklega töluverð enda er hún einn örfárra þingmanna flokksins, til þess að flokkurinn leggi hluta af ríkisstyrk sínum til Landspítalans á hverju ári kjörtímabilsins? Þetta þarf ekki að vera mikið, það mætti byrja á svo sem 25 milljónum á ári.
Úr því að Lilja Rafney telur að einkaaðilar, sem þegar greiða gríðarlegt fé til ríkisins, eigi að leggja stórfé þar að auki til einstakra ríkisstofnana, þá er varla ósanngjarnt að hún taki upp þessa baráttu innan Vinstrigrænna.
Fjölmiðlar munu líklega spyrja hana hvort þetta sé ekki sjálfsagt, og svo hver viðbrögðin hafa orðið. Varla eru margir innan vinstrigrænna sem verða á móti því að styrkja spítalann með litlum hluta ríkisstyrkjanna. Þetta er flokkur samfélagslegrar ábyrgðar. Þar er ekki græðgin.