Helgarsprokið 13. október 2013

Vefþjóðviiljinn 286. tbl. 17. árg.

Eiga lánveitendur Orkuveitunnar, Hafnarfjarðar og Reykjanessbæjar ekki að taka þátt í svonefndum skuldaleiðréttingum eins og lánveitendur gömlu bankanna?
Eiga lánveitendur Orkuveitunnar, Hafnarfjarðar og Reykjanessbæjar ekki að taka þátt í svonefndum skuldaleiðréttingum eins og lánveitendur gömlu bankanna?

Vefþjóðviljinn hefur áður vikið að undarlegum málflutningi doktors Sigurðar Hannessonar í Klinkinu á Vísi í júní. Þar sagði þessi yfirmaður í einum af einkabönkum landsins frá hugmyndum sínum og forsætisráðherra um hvernig mætti nota eignir annarra einkabanka í „skuldaleiðréttingar“ sumra Íslendinga. Jafnframt sagði þessi fyrrum baráttumaður gegn ríkisábyrgðum frá því að ef drægist að ná fé af kröfuhöfum föllnu bankana myndi verða stofnaður sjóður sem á að lækka lán sumra Íslendinga með ríkisábyrgð, það er á ábyrgð allra Íslendinga.

Spurður um hvernig þau verðmæti kæmu til sem nota ætti í hinar miklu leiðréttingar sagði doktor Sigurður:

Erlend staða og greiðslujöfnuðurinn að auki, eins og hann hefur verið birtur, leyfir í raun ekki útgreiðslur á öllu þessu fjármagni sem að þýðir það að eigendurnir þ.e. þrotabúin verða að sætta sig við lægra virði. Þannig myndast svigrúm. Þá er spurningin hvað er það hátt, hvað er það mikið. Það er að mínu mati atriði sem á eftir að skoða miklu nánar. Það er svona vinsæll partýleikur að slá á einhverjar tölur í því, einhverjir hafa til dæmis nefnt 300 milljarða svigrúm. Því megi ná með tilteknum aðgerðum. Aðrir segja að það sé svigrúm upp á 800 til 1100 milljarða og nefna einhverjar leiðir í því sambandi. En ég held að það verði að nálgast þetta með því hvað þjóðarbúið í raun þolir og miða þá afsláttinn eða færa raunvirðið niður í þá tölu.

Hér vaknar auðvitað fyrst sú spurning hvert virði þessara eigna er fyrst greiðslujöfnuðurinn leyfir ekki útgreiðslu þeirra? Ef banki hefur lánað fyrirtæki upphæð sem eignir þess eða greiðslugeta muni aldrei geta staðið undir, er þá virði lánsins jafnt upphæð þess? Önnur spurning er hvers vegna þessir tilteknu erlendu eigendur eigna á Íslandi eigi að „sætta sig“ við „lægra virði“ fyrir eignir sínar. Hví þeir frekar en aðrir erlendir eigendur krónueigna? Forsætisráðherra hefur að vísu margsagt að gömlu bankarnir hafi valdið tjóni hér á landi sem þeir skuli gjöra svo vel að bæta. En hvað með þá sem lánuðu Orkuveitu Reykjavíkur, Hafnarfjarðarbæ eða Reykjanesbæ langt umfram greiðslugetu? Og hvar var sýnt fram á þetta tjón og bótaskylda gömlu bankanna sönnuð? Hefur forsætisráðuneytið tekið við saksókn og dómsvaldi í landinu? Og doktor Sigurður Hannesson lögregluvaldi?

Svo hnjóta sjálfsagt ýmsir um fullyrðingar Sigurðar um verðmæti sem eiga að verða til þegar eigendur þrotabúa bankanna fá ekki greitt fyrir eignir sínar á genginu 160 Íkr/evru heldur 250 Íkr/evru. Ef gengi í viðskiptunum þarf að vera 250 Íkr/evru hvernig nýtist munurinn á því og 160 Íkr/evru til að greiða niður skuldir? Það berast reglulega fréttir af því að skiptum sé lokið á eignarhaldsfélögum þar sem ekki fæst nema 0,1% upp í kröfur, getur doktor Sigurður ekki notað sömu gullgerðarlist til að nýta þau 99,9% sem þar fara forgörðum til að greiða niður skuldir?

Loks verður að spyrja hvað ef raunverulegt gengi er 300 Íkr/evru? Hver er þá að greiða með hverjum? Undanfarið hafa menn bent á að líklega hafi eignir nýju bankanna verið vanmetnar árið 2009, ljóst er að stórkostleg mistök voru gerð þegar samið var um skuldabréf á milli gamla og nýja Landsbankans í erlendum myntum og þegar reynt var að halda sparisjóðum á lífi. Hví skyldi ríkið ramba á rétt verð að þessu sinni og hafa yfirleitt grænan grun um hvort „afslátturinn“ sé raunverulegur?
Lærdómurinn sem það þarf að draga af bankahruninu er ekki bara að Steingrímur J. Sigfússon eigi ekki að láta ríkið gangast í ábyrgðir fyrir skuldir einkaaðila, heldur að ríkið eigi ekki að gangast í ábyrgðir fyrir skuldir einkaaðila.