Vefþjóðviljinn 284. tbl. 17. árg.
Sumir segja að íslensk stjórnmálaumræða snúist um einfaldar skyndilausnir, jafnvel gullgrafarastemningu. Eru í því sambandi nefndar virkjanir, hlutabréf, stóriðja og ýmislegt fleira sem mörgum er í nöp við.
Sjaldnar eru þó nefndar grundvallarstoðir eins og kvikmyndagerð, þar sem hver króna kemur margföld til baka að sögn kvikmyndagerðarmanna og í rauninni ótrúlegt að ríkið setji ekki öll fjárlög sín í kvikmyndagerð og svo geta landsmenn lifað á gróðanum næstu öldina eða svo.
Flestir áhugamenn um ódýrar skyndilausnir hafa síðustu ár haft eina draumsýn ofar í huga en allar aðrar.
Frá því aflamarkskerfi var komið á í sjávarútvegi hefur rekstrarumhverfi hans gerbreyst. Kerfið stuðlar að hagkvæmni og veldur því að útgerðarmenn hafa mikla hagsmuni af því að gæta að auðlindinni og gera sitt besta til að hún varðveitist. Það, að auðlindin varðveitist og að alltaf verði hægt að stunda sjávarútveg við landið, með tilheyrandi verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið, er það sem átt er við þegar sagt er í fiskveiðistjórnunarlögunum að nytjastofnarnir á Íslandsmiðum séu „sameign íslensku þjóðarinnar“ – en ekki að landsmenn eigi óveiddan fiskinn eins og hverja aðra eign, og geti heimtað fyrir hann leigu, svona eins og bíl eða hús.
En hagkvæmnin sem aflamarkskerfið hefur leitt inn í sjávarútveginn, hefur auðvitað einnig skilað af sér hópi áhugamanna um skyndilausnir. Þeir vilja einfaldlega leggja sérstakt gjald á sjávarútveginn, umfram venjulega skatta sem lagður er á öll fyrirtæki sem vel ganga, og fjármagna þannig ýmis gæluverkefni sín úr ríkissjóði. Þetta réttlæta þeir gjarnan með rangtúlkunum sínum á hugtakinu „sameign íslensku þjóðarinnar“, og hafa með margra ára söng komið því til leiðar að talsverður hópur landsmanna trúir því í einlægni að hann sé einn eiganda fisksins sem syndir á miðunum, og þeir sem stundi útgerð séu í skuld við þessa „eigendur fisksins“.
Næstkomandi mánudag heldur Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt málþing sem tileinkað er minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors og verður þar fjallað um kvótakerfi og veiðigjald. Málþingið hefst í hátíðarsal Háskóla Íslands klukkan 17 á mánudag og hefðu margir gagn af að sitja það.