Miðvikudagur 9. október 2013

Vefþjóðviljinn 282. tbl. 17. árg.

Í tilefni af aldarafmæli sínu á þessu ári hefur Morgunblaðið undanfarnar vikur farið um landið og fjallað um einstök byggðarlög og rætt við íbúa. Í gær var fjallað um Vopnafjörð og meðal annars talað við Cathy Josephson, vestur-Íslending sem kom fyrst til landsins árið 1994 og hefur nær óslitið síðan búið á Vopnafirði. Eða eins og segir í blaðinu: „Cathy býr nú á bænum Refsstað í Vopnafirði ásamt eiginmanni sínum Sverri Ásgrímssyni. Hún er m.a. málari, sinnir saumaskap og samhliða hafa þau rekið bændagistingu en Cathy segir að sökum skatta og leyfisgjalda sé það orðið of dýrt og eru þau formlega hætt með hana.“

Já, skattar og leyfisgjöld náðu að loka lítilli bændagistingu hjóna við Vopnafjörð. Það er nú aldeilis fagnaðarefni.

Engin leið er að segja til um tjónið sem stjórnlyndir menn vinna á atvinnulífi og mannlífi í landinu með samfelldum kröfum sínum. Sífellt er krafist nýrra leyfa, úttekta, eftirlits. Og gjalda.

Fréttamenn kynda svo undir þessu, því í hvert sinn sem eitthvað fer úrskeiðis einhvers staðar er eftirlitsskortur það fyrsta sem fréttamönnum dettur í hug. Annað hvort kemur á daginn að eitthvert mannlegt atferli sé bara ekki „eftirlitsskylt“, eða þá að eftirlitið hefur „brugðist“.

Sjálfsagt gera fáir sér grein fyrir því hversu miklu þeir missa af, vegna eftirlitskrafna, gjalda og skatta sem hið opinbera leggur á atvinnustarfsemi í landinu. Maðurinn sem fær ekki gistingu í Vopnafirði veit ekki að opinberar álögur urðu til þess að ein hjón ákváðu að loka bændagistingunni sinni. Sá sem bölvar húsaleigunni sinni veit ekki hvaða áhrif smásmuguleg ákvæði byggingarreglugerðar höfðu á byggingarkostnaðinn og þar með á kaupverðið sem húseigandinn varð borga og þar með á leiguna sem hann þarf að biðja um. Gesturinn sem varla á fyrir gistingunni veit ekki að hún er aðeins dýrari en hún hefði verið, ef vinnueftirlitið hefði ekki krafist þess að gistiheimilið kæmi upp sturtu fyrir starfsfólkið, sem notar hana reyndar aldrei.

Skattar og álögur, eftirlit og aðrar kröfur, þvælast fyrir, eyða tíma og valda kostnaði, sem kemur niður á viðskiptavinum fyrirtækja um allt land, stórra sem smárra. Nema auðvitað viðskiptavinum þeirra fyrirtækja sem er bara lokað. Þeir viðskiptavinir eru ekki til.

Þeir sem mæla fyrir eftirliti og gjaldtöku ættu að hafa í huga þær byrðar sem lagðar eru á atvinnulífið í landinu með sköttum, gjöldum og látlausum eftirlitskröfum.