Vefþjóðviljinn 281. tbl. 17. árg.
Þau eru mörg Nígeríubréfin sem skuldugir húseigendur á Íslandi hafa fengið undanfarin ár frá stjórnmálaflokkunum. Eitt þeirra inniheldur loforð um að skuldir geti gufað upp ef menn afhenda lykla að húsnæði sínu. Bara ef þú greiðir mér atkvæði þitt kæri kjósandi.
Í frétt á vef Morgunblaðsins í dag segir hins vegar:
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir lögmenn sem innanríkisráðuneytið hafi leitað til flesta þeirrar skoðunar að mjög erfitt sé að koma við afturvirkni í svokölluðu lyklafrumvarpi sem nú er í undirbúningi.
Samkvæmt þingsályktunartillögu sem samþykkt var á sumarþingi var innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra falið að undirbúa lyklafrumvarp sem lagt verði fram á haustþingi. Lyklafrumvarpinu er ætlað að veita fólki heimild til að skila lyklum að húsnæði og losna þannig við allar skuldir sem hvíla á húsnæðinu.
Árum saman er því haldið fólki að þingið geti með lögum breytt samningum manna aftur í tímann. Svo hefur loks einhver fyrir því að spyrja nokkra lögfræðinga hvort þetta sé gerlegt. Ha, fór kanínan ofan í hattinn aftur?
Væri ekki gagnlegt ef fjölmiðlar tækju nú saman lista yfir þá sem hafa verið að vekja falsvonir hjá fólki með þessu lyklafrumvarpstali undanfarin fimm ár?