Mánudagur 7. október 2013

Vefþjóðviljinn 280 tbl. 17. árg.

Þessi niðurskurður gengur allt of langt. 

Það er ekki undarlegt að spítalarnir séu tækjalausir og læknarnir farnir. Stjórnvöld skera allt sem þau geta.

Það er með herkjum að ráðherrunum tekst að leggja til nokkur hundruð milljóna króna hækkun framlaga almennings til Ríkisútvarpsins. Ekki vilja þeir vera kallaðir fasistar á bloggsíðum vinstrimanna. 

Menntamálaráðherra hefur nú skrifað undir samning um 300 milljóna framlög ríkisins til Íþróttasambands Íslands á næsta ári. Styrkur til rekstrar ÍSÍ nemur 103,7 milljónum króna og stuðningur við „sérsambönd“ innan ÍSÍ 70 milljónum. Svo eiga 70 milljónir að fara í ferðasjóð íþróttafélaga og 55 milljónir í afrekssjóð. 

Svona hart er skorið niður. Það verður ekki nema 70 milljóna króna opinbert framlag í ferðasjóð íþróttafélaga á næsta ári. Menn eru greinilega komnir alveg inn að beini. 

Utan þessa samnings er svo auðvitað lögverndað einkaleyfi íþróttahreyfingarinnar og Öryrkjabandalagsins til þess að reka lottó. Hvers virði er sá stuðningur á hverju ári?