Helgarsprokið 6. október 2013

Vefþjóðviljinn 279. tbl. 17. árg.

Á dögunum var haldin ráðstefna um „menntavísindi“, þar sem fulltrúar „allra skólastiga“ komu saman til skrafs og ráðagerða. Ekki er vafi á að geysilegt gagn er af ráðstefnunni enda sátu hana meira en 1300 manns.

Hvernig væri að reyna að halda eitt ráðstefnulaust ár? Gefa landsmönnum í eitt ár eins mikið fundafrí og mögulegt er? Hvaða afleiðingar ætli það hefði?

Hvert ætli gagnið sé af ráðstefnu eins og þessari? Skipuleggjendur myndu auðvitað segja að ráðstefnan væri ómetanleg. Fróðleg erindi, kynning á hinu og þessu, menn hittast. „Hrista saman hópinn“ er stundum sagt, eins og að eitthvað annað en vodka martini batni við hristing.

En hvert sem gagnið er af 1300 manna ráðstefnu, þá er augljóst að kostnaðurinn er ákaflega mikill. Ráðstefnan var haldin úti á landi. Flestir þurfa að koma sér um langan veg, hugsanlega gista. Þeir þurfa líklega að borða um kvöldið. Eitthvað drekka þeir af kaffi og borða af jólakökum. Einhverjir starfsmenn hafa verið við ráðstefnuhaldið, salur hefur verið leigður, útbúin nafnspjöld, mikið prentað og örlítið af því lesið.

Og svo er sá kostnaður sem ekki skiptir minnstu máli, tíminn. Þeir sem fara slíka ráðstefnu gera ekki annað í vinnunni á meðan.

Hversu margar ráðstefnur af þessu tagi ætli séu haldnar á hverju ári? Hversu mikill tími opinberra starfsmanna fer í „fræðslufundi“, „kynningar“ og „hópastarf“ og hversu mikið af því ætli sé tómt mal um ekkert? 

Hvernig væri nú að gera óvísindalega könnun á gagnsemi þessa alls, með því að hafa eitt ráðstefnulaust ár? Í síðustu viku var einnig haldin „fjármálaráðstefna sveitarfélaganna“. Hversu margir hafa farið á hana á eigin kostnað? Sjálfsagt mætti telja svona nær endalaust. 

Hversu margar ráðstefnur eru haldnar, fyrst og fremst vegna þess að „nú er komið að ráðstefnunni þetta árið“? Hversu margir „árlegir fundir“ þurfa alls ekki að vera árlega? 

Ef árlegum ráðstefnum og fundum yrði breytt þannig að þau yrðu aðeins haldin annað hvert ár, myndi verulegt fé og tími sparast. Finnst einhverjum líklegt að tjónið, af því að ráðstefnunum fækkaði, yrði meira en sá sparnaður?

Hvernig væri að reyna í eitt ár að sleppa „starfsdögum“ í skólum? Hugsanlega kemur í ljós að þeir voru ómetanlegir og vel virði allrar fyrirhafnarinnar sem þeir leggja á aðra, með fjarvistum úr vinnu og minni verðmætasköpun í landinu. En það er þá búið að reyna það. Yrði skólastarf verra, svo að síðri nemendur kæmu úr skólunum, ef „starfsdögum“ yrði fækkað, eða þeir jafnvel afnumdir?

Stofnanir þar sem menn kvarta sáran yfir fjárskorti, þurfa þær að senda menn á fundi og ráðstefnur á hverju ári? Skólarnir kvarta sáran yfir fjárskorti og manneklu. Gætu þeir nýtt peninga og tíma betur ef ráðstefnum um menntavísindi fækkaði? 

Og að sjálfsögðu ætti að fækka mjög ferðum á ráðstefnur og fundi erlendis. Flest af því er líklega óþarfi og það, sem þarf að sinna, mætti margt gera með ódýrari hætti. Ráðherrar fara gjarnan á árlega fundi með erlendum ráðherrum sama málaflokks. Dettur einhverjum í hug að það yrði raunverulegur álitshnekkir fyrir Ísland ef íslenski ráðherrann færi ekki eitt árið? Hefur það einhvern tíma gerst að eftir slíkan fund hafi undrunarbylgja farið um landið þar sem hver maður segir við annan: „Hefur þú heyrt að makedóníski samgönguráðherrann kom ekki á 46. alheimsfund ferðamálaráðherra? Makedónía er greinilega ekki land með löndum?“

Hvernig væri að setja þá reglu að birt yrði á heimasíðu hvers ráðuneytis og sveitarfélags hvaða ráðstefnur hafi verið sóttar síðasta mánuðinn, og hver kostnaður hafi verið af því. Með mætti að sjálfsögðu fylgja stutt frásögn af gagnsemi ráðstefnunnar, ef þörf er á.