Laugardagur 5. október 2013

Vefþjóðviljinn 278. tbl. 17. árg.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs og leiðtogi jafnaðarmannaflokks landsins, sagði frá því á heimasíðu sinni í sumar að hann hefði, til þess að heyra frá fyrstu hendi viðhorf venjulegra Norðmanna til helstu mála, brugðið á það ráð að aka leigubifreið um götur Oslóar, dulbúinn. Sýndi hann jafnframt myndband af sér við undirbúninginn og þar sem hann ræddi við farþegana. Þetta þótti mörgum mjög sniðugt hjá Stoltenberg og sýna hversu hann væri líflegur og ólíkur öðrum stjórnmálamönnum. Var talið að þetta myndi auka fylgi hans í komandi þingkosningum.

Skömmu síðar kom í ljós að „farþegarnir“ fengu í raun greitt fyrir hjá jafnaðarmannaflokknum. Það sem áður þótti til marks um frumleika Stoltenbergs vakti því undrun og svo aðhlátur víða um heim.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í vikunni lét Katrín Jakobsdóttir dæluna ganga um gagnsleysi ríkisstjórnarinnar. Sagði hún að það væri ekki undarlegt að þegar farið væri inn á slóðina misskilningur.is kæmi mynd af ríkisstjórninni.

Sniðugt hjá Katrínu. Þessu hefur hún tekið eftir. Það fer ekki fram hjá henni hvað almenningur gerir skemmtilegt á vefnum. Hún er einmitt „öðruvísi stjórnmálamaður“.

Þannig hafa áhorfendur hugsað. Alveg þangað til þeir fréttu að ungliðahreyfing vinstrigrænna er skráð fyrir síðunni.