Miðvikudagur 2. október 2013

Vefþjóðviljinn 275. tbl. 17. árg.

Hinir 16 þúsund fermetrar Ríkisútvarpsins í Efstaleiti sjást vel utan úr geimnum í Google Satellite.
Hinir 16 þúsund fermetrar Ríkisútvarpsins í Efstaleiti sjást vel utan úr geimnum í Google Satellite.

Fyrstu fréttir af fjárlagafrumvarpinu hljóta að vera byggðar á misskilningi. Það getur til dæmis ekki verið að ekki sé gert ráð fyrir niðurskurði hjá Ríkisútvarpinu. Og það getur ekki verið að stjórnarþingmönnum detti í hug í alvöru að hækka útvarpsgjaldið. Fyrstu fréttir af fjármálum Ríkisútvarpsins eru svo fráleitar að þær hljóta að vera byggðar á misskilningi. Við núverandi ástand í ríkisfjármálum er algerlega óhjákvæmilegt að skera mjög hraustlega niður hjá Ríkisútvarpinu. Og að hækka útvarpsgjaldið er ótrúleg ósvífni í garð skattgreiðenda, bæði einstaklinga og fyrirtækja, sem eiga nóg með önnur útgjöld sín. 

Og ekkert virðist hafa komið út úr starfi hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar annað en nokkur viðtöl við hluta hópsins, þar sem sögð voru stór orð um að nú skyldi hugsa ríkisreksturinn upp á nýtt. Innihaldsleysinu þar verður líklega best lýst með því að menn ætla að auka útgjöld til fæðingarorlofssjóðs. Engar grundvallarbreytingar, engin ný hugsun, ekkert nema nokkur viðtöl.

Oft hefur verið minnst á hversu ótrúlegan áhuga starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa á „mótmælum“ og hvernig svokölluð fréttastofa Ríkisútvarpins hefur verið notuð til að auglýsa væntanleg mótmæli. Eitt dæmið var í hádegisfréttum í gær.

Þá var sagt frá því að Alþingi yrði sett síðar um daginn. Að sjálfsögðu tók fréttastofan fram að efnt yrði til mótmæla á Austurvelli og var sagt frá því að „aðgerðahópurinn“ ætlaði að ganga frá velferðarráðuneytinu og að þinghúsinu. Næst var skipt yfir að velferðarráðuneytinu þar sem fréttamaðurinn Sunna Valgerðardóttir var stödd. Hún sagði: 

Já sæll Broddi, nú er ég hérna stödd við velferðarráðuneytið, það eru nú ekki margir mættir, mér telst það til að það séu um fimm manns. En hópurinn átti að mæta klukkan hálf, svo er stefnt að því að arka að Alþingishúsinu…

Næst talaði fréttamaðurinn við Helgu Björk Magnúsdóttur og Grétudóttur, sem fór fyrir „aðgerðahópnum“, og spurði: „Helga Björk, hverju viljið þið koma á framfæri?“ Svo kom lestur frá Helgu Björk Magnúsdóttur og Grétudóttur um kröfur aðgerðahópsins. Svo var fréttinni lokið.

Það er rétt að minna á, að þegar fréttamaður rétti Helgu Björk Magnúsdóttur og Grétudóttur hljóðnemann, með þeirri einu spurningu „Hverju viljið þið koma á framfæri?“, þá voru slík fjöldamótmæli í gangi að fréttamanni taldist svo til að mættir væru „um fimm manns“. 

Það er fyrir löngu komið í ljós að í Efstaleiti 1 sér enginn neitt að því að nota ríkisútvarp með þessum hætti. Þeir vita líka að þeir þurfa ekki að óttast að núverandi stjórnvöld þori að lyfta litla fingri gegn klíkunni sem stýrir Ríkisútvarpinu. Þeir vita líka að hjá Ríkisútvarpinu mun enginn þurfa að bera ábyrgð á neinu.