Þriðjudagur 1. október 2013

Vefþjóðviljinn 274. tbl. 17. árg. 

Vösk sveit hjá Reykjavíkurborg lét ekki hrunið trufla sig við skönnun á húsateikningum inn á alnetið. Það truflaði borgaryfirvöld ekki heldur að húseigendur höfðu ekki gefið leyfi sitt til þess arna. Myndin er að sjálfsögðu fengin í heimildarleysi af vef borgarinnar.
Vösk sveit hjá Reykjavíkurborg lét ekki hrunið trufla sig við skönnun á húsateikningum inn á alnetið. Það truflaði borgaryfirvöld ekki heldur að húseigendur höfðu ekki gefið leyfi sitt til þess arna. Myndin er að sjálfsögðu fengin í heimildarleysi af vef borgarinnar.

Þetta fór ekki hátt í vor, slíkur var atgangurinn í sjálfri ríkisstjórninni við að afnema ýmsa þætti friðhelgi einkalífs.

En borgarstjórn Reykjavíkur dró ekki heldur af sér í þeim efnum og tilkynnti stolt í lok maí að teikningar af húsum allra borgarbúa væru nú aðgengilegar á vef borgarinnar.

Sá merki áfangi að gera aðaluppdrætti bygginga í Reykjavík aðgengilega á vef hefur nú náðst.  Vinnan hefur staðið yfir í nokkur ár enda ekkert áhlaupavert að skanna og skrá með leitarorðum 130 þúsund teikningar.

Þetta er aldeilis fín þjónusta við innbrotsþjófa, eltihrella og fjarskyldar frænkur utan af landi sem vilja skanna möguleika á ókeypis gistingu hjá þér. Eða bara við garmana sem hafa ekkert safaríkt um nágrannann meðan þeir bíða eftir næsta tekjublaði. 

Húseigendur voru að sjálfsögðu ekki spurðir álits áður en herbergjaskipan heima hjá þeim var dembt á lýðnetið. Fæstir hafa heyrt af því. Útsvarsgreiðendur voru heldur ekki spurðir hvort þeir hefur ekkert annað betra við launin sín að gera en að láta þau renna í þetta verkefni árum saman. En það er nú ekki eins og hér hafi orðið hrun eða eitthvað og menn þurfi að spara.

Daginn sem herlegheitin voru birt lýsti borgin því jafnframt yfir að: 

Hver og einn eigandi húss getur óskað eftir því að grunnmyndar teikning húss hans sé fjarlægð úr gagnagrunninum, en það heyrir til undantekninga að slíkar beiðnir berist.

Það heyrir alveg til undantekninga að menn vilji ekki vera í galopnum gagnagrunni á netinu sem þeir vita ekki af.