Vefþjóðviljinn 273. tbl. 17. árg.
Hún var næstum áþreifanleg, þögnin sem varð þegar Hannes H. Gissurarson birti á dögunum opinberlega fimmtán spurningar sem hann kvaðst beina til Roberts Wades, erlends prófessors sem kemur af og til hingað til lands og er gjarnan gestur í fjölmiðlum. Spurningarnar voru í tilefni af grein sem Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, sem einnig er oft spurð álits í fjölmiðlum, höfðu skrifað í erlent rit, New Left Review.
Þó mörgum fjölmiðlamönnum og álitsgjöfum hafi oft þótt mjög æskilegt að fá álit Wades og Sigurbjargar á málum, þá hafa þeir haft verulega lítinn áhuga á því að leita svara þeirra við þessum spurningum. Ef marka má það sem Hannes vitnar til greinar þeirra, og svo spurninga hans, þá virðist vera ótrúlega mikið af beinum rangfærslum og órökstuddum fullyrðingum í grein þeirra. Hvers vegna ætli fjölmiðlar minnist ekki einu orði á spurningarnar og það að ekkert svar muni hafa komið við þeim? Ekki hefur alltaf skort áhugann á þeim Wade og Sigurbjörgu. Og ef spurningar Hannesar eru tómur misskilningur og rangfærslur, þá væri það auðvitað neikvætt fyrir hann og ekki vantar eftirspurnina eftir slíku. Samt minnast fjölmiðlar og álitsgjafar ekki á spurningarnar.
En fjölmiðar sögðu hins vegar frá því um daginn að Sigurbjörg hefði beðið Hannes afsökunar á því að hafa ranglega fullyrt opinberlega að hann hefði sagt eitthvað, sem hann hafði aldrei sagt. Sennilega var sú frétt óskiljanleg í eyrum flestra, og hugsanlega hafa einhverjir haldið að þar með hefði verið svarað spurningunum til Wades. Þær hefðu þá bara snúist um einhverja vitlausa tilvitnun í Hannes. En þetta mál var alls ekki meðal spurninganna til Wades. Þeim hefur aldrei verið svarað opinberlega svo vitað sé, en enginn fjölmiðill hefur áhuga á því. Og þess er eflaust stutt að bíða að Wade og Sigurbjörg verði aftur komin í fjölmiðla með kenningar sínar, sem munu falla í jafn góðan jarðveg þáttastjórnenda og áður.