Helgarsprokið 29. september 2013

Vefþjóðviljinn 272. tbl. 17. árg.

Bíóauglýsing frá 1916. Það hefði þó verið enn betri sýning á jafnaðarmennskunni árið 1916 ef tekist hefði að banna bíósýningar.
Bíóauglýsing frá 1916. Það hefði þó verið enn betri sýning á jafnaðarmennskunni árið 1916 ef tekist hefði að banna bíósýningar.

Vefþjóðviljinn er stundum að andmæla því að eitt og annað sé beinlínis bannað eða úthýst með öðrum hætti, líkt og með háum sköttum. Þetta hafa fleiri gert og áður og ekki með síðri hætti.

Lesandi benti Vefþjóðviljanum á skrif í Morgunblaðið 5. janúar 1916 þar sem hugmyndum um bann við bíósýningum í Reykjavík voru gerð ágæt skil:

Ísland er stundum nú orðið kallað bannlandið. Það er ekki að ófyrirsynju. Síðan svo vel tókst að koma aðflutningsbanninu á, rís á fætur hver af öðrum þeirra manna, er telja sig sjálfsagða og sjálfkjörna til þess að vera einskonar forráðamenn hinna, og vilja láta »banna« allan þremilinn. Í sjálfu sér ,má segja, að sumt af þessu sé þannig, að ákjósanlegast væri að menn iðkuðu það ekki, eða minna. En að banna mönnum að nota frjálsræði það, er skaparinn hefir gefið þeim, á þó auðsjáanlega aldrei að gera, nema brýn þörf þjóðfélagsins heimti. Annars yrði þjóðin öll eins og skepnur ávalt í taumi eða tjóðri, er aldrei lærði að rata rétta leið af eigin ramleik. Við erum nú orðin svo vön þessu bann-ofstæki, eða ímyndun manna um að þeir geti kipt öllu í lag, því sem þeim þykir miður fara, eingöngu með »opinberu« banni, að okkur blöskrar fátt i því efni. En þó er það víst, að undirstaðan er sú, að reyna að láta hvötina til að laga eitthvað glæðast hjá einstaklingunum bannlaust, en nota þvingunina aðeins sem neyðarúrræði, þegar þjóðfélaginu í heild sinn stafar hætta af ella.

En þó að vér — eins og áður er sagt — séum farnir að venjast mörg- um bann-hugmyndum hér í þessum bæ, þá verðum vér að játa, að varla hefir oss þótt annað af þessu tagi meira vanhugsað en tilraunir sumra nú á síðustu tímum (aðallega verka- mannafélagsins »Dagsbrún«) til að stöðva kvikmyndasýningar hér í bænum, með banni bæjarstjórnar, bæjarfógeta, eða guð veit hverra það á að vera gjört, vegna þess að almenningur, sem ekki hafi ráð á slíku, noti altof mikið fé »núna í dýrtíðinni« til þess að fara á myndasýningarnar. Með öðrum orðum: Þessir »bannvinir« þykjast skipaðir fjárforráðamenn almennings og vilja — í heilagri einfeldni — fá að ráða því hvað menn kaupa fyrir aurana sína.

Að þeir ekki hafa gert sér neina skynsamlega grein fyrir þessari uppástungu sinni, er svo sem auðvitað. Og að þeir ekki einu sinni eru færir um það, er jafnvel líklegast. Hvar væru takmörkin, ef út i svona lagaðar bann-öfgar ætti að halda? Á ekki að banna að selja brjóstsykur »núna í dýrtíðinni«? Eru sveskjur ekki óþarfi ? Og rúsínur ? Og jólakerti, og öll þessi ótætis jólakort, sem held ég narra margan skilding út úr fátæklingunum, og jafnvel börnunum þeirra ? »Á ekki að loka konfektbúðum ? Á ekki að »banna« kaupmönnum helzt að verzla með annað en það, sem ómissandi er til þess að fleyta fram tilverunni ? — Þetta væri alveg i sama anda, og ekkert vitlausara en að banna mönnum að kaupa sér bílæti í Bíó. Og hver veit nema það verði það næsta, er bann-ofstopar þessir hamast að, verði þeir ekki stöðvaðir af þeim vitrari mönnum.

Höfundur lýkur máli sínu á því að hann gerir sé engar vonir um að snúa bannvinum „heldur til að setja þá og vitleysu þeirra í gapastokk þann, er þeir eiga heima í.“