Þriðjudagur 24. september 2013

Vefþjóðviljinn 267. tbl. 17. árg.

Ríkisstjórnin lýsti því yfir í október 2008 að allar innstæður í íslenskum fjármálafyrirtækjum væru „tryggðar að fullu“. Þessi trygging var aldrei leidd í lög og hafði því ekkert raunverulegt gildi nema sem róandi fyrir auðtrúa.

Það er því ekki rétt sem sagði í frétt Ríkisútvarpsins í gær að nú væri unnið að því í fjármálaráðuneytinu að draga í land með innstæðutryggingar. Hið rétta er að Evrópusambandið vill að innstæðutryggingakerfið, sem stóð ekki undir 20.000 evra tryggingu við bankahrunið 2008, verði framvegis ábyrgt fyrir 100.000 evrum á hverjum bankareikningi.

Eftir það sem á undan er gengið er í raun stórkostlega ámælisvert að það skuli vera til umræðu í fjármálaráðuneytinu að ríkið blandi sér áfram í tryggingar á sparifé í bönkum þótt ekki eigi að heita beinni ríkisábyrgð. Ríkið á þvert á móti að gera það alveg ljóst að það muni aldrei blanda sér í þessi mál.

Sparifjáreigendur eiga sjálfir að sjá um sínar tryggingar, telji þeir ástæðu til að tryggja sig gegn áföllum. Það gera eigendur annarra verðmæta.