Vefþjóðviljinn 266. tbl. 17. árg.
Það er áberandi í fréttum að Íslensk Náttúra, sem á sama afmælisdag og Ómar Ragnarsson, og fleiri menn, sem nefna sig Hraunavini, eru mjög reiðir út í Vegagerðina. Reiðin er vegna þess að Vegagerðin lætur ekki stöðva framkvæmdir við vegalagningu í og við Gálgahraun, þrátt fyrir að deila um framkvæmdina sé komin til dómstóla.
Það væri skemmtilegt ef það væri rétt að mönnum bæri að stöðva framkvæmdir á meðan dómsmál eru um þær. Ef það væri rétt myndi Vefþjóðviljinn eiga erfitt með að stilla sig um að fara í mál og krefjast þess að Ríkisútvarpinu yrði lokað, þar sem hlutdrægni þess bryti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þessu fylgdi auðvitað krafa um að útsendingum yrði hætt þar til niðurstaða kæmi í málið.
Það er skiljanlegt að Vegagerðin láti ekki stöðva framkvæmdir þótt andstæðingar þeirra leiti réttar síns. Það er einnig skiljanlegt að Vegagerðin vilji ekki beygja sig fyrir þeim sem ætla að taka sér réttinn með valdi, svo sem með því að leggjast fyrir vinnutæki. Vegagerðin verður auðvitað að halda áfram þeim framkvæmdum sem hún hefur verið látin hefja. Ákvörðun um að stöðva þær þyrfti að koma annars staðar frá.
Yfirmaður Vegagerðarinnar er Hanna Birna Kristjánsdóttir samgönguráðherra. Ákvörðun um að stöðva framkvæmdir í og við hraunið yrði að koma frá henni, en ekki embættismönnum hjá Vegagerðinni.
Og þá ákvörðun ætti samgönguráðherra að taka sem fyrst. Ríkissjóður þarf að spara mjög miklar fjárhæðir. Það verður að skera mjög verulega niður í ríkisrekstrinum. Við þær aðstæður er fráleitt að eyða stórfé í vegarlagningu eins og þá sem menn vilja fara með í gegnum Gálgahraun, sem auk þess virðist vera ljómandi fallegt.