Vefþjóðviljinn 265. tbl. 17. árg.
Það er merkilegt hversu mikinn áhuga fréttamenn hafa á „mótmælum“ og „mótmælendum“. Sérstaklega þeir hjá Ríkisútvarpinu auðvitað. Það er eins og þeim þyki alltaf fréttnæmt ef reiðir menn koma saman og öskra. Hversu fáir sem þeir eru og hversu oft sem hljóðneminn hefur verið réttur að þeim, þykir fréttamönnum Ríkisútvarpsins þetta eiga alltaf jafn mikið erindi við landsmenn.
Og jafnvel áður en mótmælendurnir eru byrjaðir á atriði sínu er Ríkisútvarpið komið með í spilið. Fréttamönnum finnst ekkert að því að auglýsa mótmælafundi í fréttatímum. Sérstaklega kvað rammt að þessu veturinn frá hausti 2008 og til ríkisstjórnarskipta, en þá voru mótmælafundir auglýstir í fréttatímum í marga daga áður en þeir voru haldnir, bútar úr ræðum voru spilaðir og talað við áköfustu menn, en aldrei spurt nokkurra gagnrýnna spurninga. Þegar sló í brýnu töldu fréttamenn jafnan að lögreglan hefði farið offari. Þegar ráðist var á lögreglustöðina til að frelsa handtekinn menn hafði Ríkisútvarpið mestan áhuga á því hvort réttilega hefði verið staðið að handtöku hans. Gat ekki verið að lögreglan hefði þar farið offari?
Frá áhuga fréttamanna á mótmælum varð auðvitað undantekning þegar efnt var til mótmæla gegn fiskveiðistjórnarfrumvörpum vinstristjórnarinnar. Þá var áhugi fréttamanna fyrst á því hvort verið gæti að sjómenn væru þvingaðir til að mæta á fundinn, en síðan varð það að fyrstu frétt að einhverjir aðrir ætluðu að halda fund til að mótmæla hinum fundinum. Þá voru aftur mótmælendur á leiðinni sem fréttamenn höfðu áhuga á.
Í síðustu viku kom hingað til lands danskur hershöfðingi sem starfar hjá Nato. Ríkisútvarpið sagði örstutt frá komu hans, en svo því að ungir vinstrigrænir hefðu efnt til mótmæla vegna komu mannsins. Svo var spilað í fréttatímum þegar einhverjir menn hrópuðu gamla slagorðið um Ísland úr Nato og herinn burt.
Því miður spurði fréttamaður mótmælendurna ekki um hvort þeir hefðu verið ánægðir með það að Nato hefði gert árásir á Líbýu, á þeim tíma þegar íslenska vinstristjórnin hafði neitunarvald innan Nato, en notaði það ekki. Hvort þeir hefðu séð ástæðu til að ganga með skilti fyrir utan skrifstofur íslensku ráðherranna sem oftar en einu sinni ákváðu að nota ekki neitunarvald Íslands til að stöðva loftárásirnar.
En hvers vegna er sífellt verið að segja frá því þegar einhver hópur manna kemur saman og öskrar slagorð? Ef forysta vinstrigrænna hefði skrifað vandaða blaðagrein þar sem hún hefði rökstutt af þekkingu hvers vegna best væri fyrir Ísland að yfirgefa Nato, hefði það aldrei ratað í fréttir. Hún hefði að vísu fengið viðtöl í Víðsjá og „dægurmálaútvarpinu“, en ekki komist í fréttatíma. En þegar sömu menn mæta og öskra innantóm slagorð, þá mæta fréttamenn.
Fámenn mótmæli eru alla jafna ekki fréttnæm. En þegar baráttumenn vita að þeir fá ókeypis kynningu í ljósvakamiðlum með því að mæta einhvers staðar og öskra, þá grípa sumir þeirra tækifærið. Og þannig verður þetta fréttamat til að auka veg þeirra sem vilja berjast með öskrum, á kostnað þeirra sem láta sér kurteislegri aðferðir nægja.