Laugardagur 21. september 2013

Vefþjóðviljinn 264. tbl. 17. árg.

Það liggur mikið við. Þing hefur verið kallað saman tvisvar frá þingkosningum í vor til að koma meginmáli forsætisráðherrans í gegn. Í seinni skiptið, nú í september, var málið nánast eina ástæðan fyrir því að löggjafinn tók til starfa.

Hið mikilvæga mál er að hagstofan fái aðgang að öllum lánasamningnum í landinu og verði eins og segir í lögunum „heimilt að tengja upplýsingar sem fengnar eru á grundvelli þessarar málsgreinar við upplýsingar sem hún hefur aflað frá öðrum opinberum aðilum.“ Í raun er með þessu búið að afnema friðhelgi einkalífs hvað fjárhagsmálefni einstaklinga varðar.

Hagstofunni er ætlað að hnýsast í þessi gögn og samkeyra við aðra gagngrunna stóra bróður vegna veraldarinnar mestu skuldaleiðréttingar. Þá „leiðréttingu“ eiga þeir að fá sem voru með verðtryggð húsnæðislán þegar „forsendubresturinn“ varð. Um helmingur heimila mun hafa verið með slík lán.

Þegar menn sækja bætur til ríkisins þurfa menn yfirleitt að gera nokkra grein fyrir sér og leggja sjálfir fram nauðsynleg gögn um stöðu sína eða gefa samþykki sitt fyrir því að þeirra sé aflað. Þeir sem hafa ekki fyrir því fá ekki bætur. En nú er verið að leggja drög að því að bætur verði greiddar út til fólks sem hefur engan áhuga á slíkum bótum. Og til þess er friðhelgi einkalífs allra landsmanna rofin, líka þess helmings landsmanna sem hefur ekki tekið verðtryggð húsnæðislán og er þar af leiðandi ekki í hinum nýja bótaflokki Framsóknar.