Vefþjóðviljinn 263. tbl. 17. árg.
Sótt er að skattgreiðendum á hverjum degi. Krafist er hærri opinberra útgjalda á ótal sviðum og á öðrum má alls ekki skera niður. Þeir sem vilja skera niður margra milljarða króna árleg framlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins eru kallaðir fasistar, í þeirri von að stjórnmálamennirnir gefist upp. Sumir reyna meira að segja að binda hið opinbera langt fram í tímann með því að gera margra áratuga langa „samninga“ við það um opinber framlög, í von um að síðari stjórnmálamenn þori ekki að reyna losa hið opinbera undan „samningnum“, og þannig verði framlögin aldrei endurskoðuð. Þannig má lengi telja.
Þrýstihóparnir eru skipulagðir og þeir sjá ávinninginn af sigri sínum mjög greinilega. Áhugamaðurinn um óperusýningar og fótbolta sér þegar sett er upp ópera, fyrir opinbert fé, eða leikinn fótboltaleikur, á nýjum velli sem sveitarfélagið borgaði. En skattgreiðandinn, maðurinn sem berst í bökkum, hann sér ekki að hann hafi það neitt skárra þó skorið verði niður um milljón hér og milljón þar. Hann hugsar kannski líka með sér, að svo illa sé hann staddur að hann ætli nú ekki að láta taka óperuna frá sér líka. Má ekki frekar skera niður annars staðar? Hvernig er með sendiráðin?
Þó er það svo að opinber útgjöld eru honum mjög þung í skauti. Þau kalla á hærri skatta á hann sjálfan og fyrirtækin sem hann verslar við, svo þau verða að hækka vöruverðið, fækka starfsfólki og svo framvegis.
Það er ákaflega mikilvægt að skattgreiðendur láti í sér heyra, krefjist niðurskurðar, mótmæli útgjaldahugmyndum, standi með þeim stjórnmálamönnum sem vilja lækka skatta en hætti að styðja hina.
Í hádeginu í dag verður haldinn áhugaverður fundur. Matthew Elliott, annar stofnenda Samtaka skattgreiðenda í Bretlandi, mun á fundi í Háskóla Íslands, Lögbergi, stofu 101, klukkan 12 til 13, fjalla um þá viðspyrnu sem nú er veitt í Bretlandi við auknum ríkisútgjöldum og hækkandi sköttum. Elliott hefur á síðustu árum orðið mjög áhrifamikill baráttumaður í heimalandi sínu og mjög áhugavert fyrir íslenska skattgreiðendur að heyra í honum og fræðast um baráttuna í Bretlandi.